Fengið nóg af rangtúlkunum og ósanngirni

Hús Orkuveitunnar í Reykjavík.
Hús Orkuveitunnar í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsfólk OR hefur fengið nóg af rangtúlkunum og ósanngirni sem stjórnmálamenn og fjölmiðlar setja á borð fyrir almenning. „Fullyrðingar um að vinnustaður okkar sé rotinn og að hér ríki þöggun eru rangar.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Guðjón Björnsson, formaður starfsmannafélags OR, hefur sent fyrir hönd félagsins. 

Yfirlýsingin tengist umfjöllun um innri úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á starfsmannamálum OR, sem var kynnt í byrjun vikunnar. 

Yfirlýsing starfsmannafélagsins er svohljóðandi:

Frá vinnufundi starfsfólks OR.
Frá vinnufundi starfsfólks OR. Ljósmynd/Aðsend

„Starfsfólk OR hefur fengið nóg af rangtúlkunum og ósanngirni sem stjórnmálamenn og fjölmiðlar setja á borð fyrir almenning. Það særir okkur hvernig stjórnmálamenn og fjölmiðlar tjá sig um vinnustaðinn sem þeir virðast ekki þekkja en leggja sig fram um að gera tortryggilegan, rangtúlka niðurstöður vinnustaðagreiningar og skýrslu Innri endurskoðunar með það að markmiði að því er virðist að grafa undan trausti gagnvart fyrirtækinu og þar með því fólki sem þar starfar. 

Fullyrðingar um að vinnustaður okkar sé rotinn og að hér ríki þöggun eru rangar. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur meginniðurstöðu þeirrar skýrslu sem nú liggur fyrir og unnin var af sérfræðingum,  sem við sem hjá fyrirtækinu störfum höfðum ekkert með að gera hver vann.

Við minnum á að í landinu gilda lög um persónuvernd og að starfsfólk sem tjáði sig við gagnaöflun gerði það í trúnaði.

Við óskum þess að þið séuð heil í því sem þið tjáið ykkur um og segið satt og rétt frá en dragið ekki upp myndir sem ekki eru til en við höfum á tilfinningunni að þið vilduð frekar mála. Nú er mál að linni.   

Verið velkomin í heimsókn til okkar og kynna ykkur málin þá kannski rennur upp fyrir ykkur ljós að hérna vinnur venjulegt fólk, heiðarlegt fólk og að fyrirtækið er rekið af starfsfólki sem hér vinnur, ekki af stjórnmálamönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert