„Eftir að fréttirnar af WOW air bárust ritaði bæjarlögmaður félaginu bréf. Spurt var um framgang verkefnisins. Hann er að bíða eftir svari,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, spurður um lóð flugfélagsins í Kársnesi.
Lóðin hafi verið í skipulagsferli fram á mitt ár. Því hafi ekki verið hægt að hefja framkvæmdir fyrr en því var lokið.
Áformað var að reisa höfuðstöðvar flugfélagsins á landfyllingu við Vesturvör í Kársnesi og hótel í eigu félagsins þar við hlið. Lóðin snýr að Nauthólsvík en þaðan er áformað að leggja brú yfir á Kársnesið. Efnt var til hönnunarsamkeppni um höfuðstöðvar WOW air en ekki greint frá vinningstillögunni.
Byggingarlóðin er í eigu félagsins TF-KÓP, en það er aftur í eigu Skúla Mogensen, eiganda WOW air. Í Morgunblaðinu í dag segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, ekkert hafa verið ákveðið um framhaldið.