Þjóðir heims standi saman um að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga

Í yfirlýsingunni er hvatt til að þjóðir heims standi saman …
Í yfirlýsingunni er hvatt til að þjóðir heims standi saman um að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Austurríkis, Alexander Van der Bellen, hefur sent frá sér yfirlýsingu um loftslagsmál með stuðningi margra þjóðarleiðtoga í Evrópu, þeirra á meðal forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar.

Í yfirlýsingunni er hvatt til að þjóðir heims standi saman um að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga sem nú ógna íbúum víða um jörðina, að því er segir í yfirlýsingu sem forseti Íslands hefur sent frá sér.

Fram kemur, að tilefni yfirlýsingarinnar sé loftslagsráðstefnan, sem senn verði haldin í Katowice í Póllandi, en efnt er til hennar í framhaldi af ráðstefnunni sem haldin var í París árið 2015.

„Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt „aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030“ og er undirritun forseta Íslands undir þessa yfirlýsingu í anda stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er megináhersla lögð á orkuskipti í samgöngumálum og átak í kolefnisbindingu,“ segir í tilkynningunni. 

Í yfirlýsingu Evrópuleiðtoganna segir meðal annars þetta:

  • (1) Loftslagsbreytingar fela í sér verulega áskorun á okkar dögum.    ( . . . ) 
  • (2) Áhrif loftslagsbreytinga liggja fyrir með eindregnum hætti og birtast víða á hnettinum: Veruleg aukning í hitabylgjum, flóðum, þurrkum, aurskriðum, bráðnun jökla og hækkun sjávarborðs. Meðal afleiðinga eru vatnsskortur og uppskerubrestur og sums staðar hörmungar á borð við hungursneyð og landflótta. ( . . . ) 
  • (3) Undanfarna öld hefur meðalhitastig jarðar þegar hækkað um sem nemur einni gráðu samanborið við tímann fyrir iðnbyltingu. Þessi hraða hitabreyting er einsdæmi í sögu mannkyns. ( . . . ) 
  • (8) Við undirrituð, sem erum þjóðhöfðingjar og forystumenn ríkisstjórna, erum sannfærð um að áhrifaríkar aðgerðir í baráttu gegn loftslagsbreytingum eru ekki aðeins nauðsyn í sjálfum sér heldur munu þær skapa jákvæðan árangur og ný tækifæri í hagkerfum okkar og samfélögum. Við teljum að markvissar aðgerðir geti stuðlað að þróun jarðar í átt að öryggi, friði og velmegun. ( . . . ) 
  • (11) Við hvetjum bæði alþjóðasamfélagið og alla sem aðild áttu að Parísarsáttmálanum til að taka höndum saman og stöðva loftslagskreppuna eins hratt og mögulegt er. ( . . . ) 

Nánar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert