Thomas Møller dæmdur í 19 ára fangelsi

Thomas Møller Olsen í Landsrétti.
Thomas Møller Olsen í Landsrétti. mbl.is/Árni Sæberg

Grænlenski skipverjinn Thomas Møller Ol­sen hefur verið dæmdur til 19 ára fangelsisvistar í Landsrétti fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur 14. janúar í fyrra og fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Dómur Héraðsdóms Reykjaness frá því í fyrra var staðfestur.

Hann var einnig dæmdur til að greiða tæpar 29 milljónir í málskostnað og bætur. Thomas Møller var dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað, 10,7 milljónir króna.

Refsiramm­inn fyr­ir mann­dráp er ævi­langt fang­elsi en al­geng­ast er að menn séu dæmd­ir í 16 ára fang­elsi. Við smygl­inu ligg­ur allt að 12 ára fang­els­is­refs­ing.

Sig­ríður Friðjóns­dótt­ir rík­is­sak­sókn­ari sagði að sönn­un­ar­gögn máls­ins sýndu að eng­inn skyn­sam­leg­ur vafi væri uppi um hvort Olsen hefði svipt Birnu Brjáns­dótt­ur lífi. Því bæri Lands­rétti að sak­fella hann.

Líklegt að sótt verði um leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar

Olsen hef­ur verið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar í fyrra en hann var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í dag.

Birna Brjáns­dótt­ir hvarf aðfaranótt laug­ar­dags­ins 14. janú­ar 2017. Lík henn­ar fannst átta dög­um síðar, eða 22. janú­ar, í fjör­unni við Sel­vogs­vita í Ölfusi. Hún var aðeins tví­tug þegar hún lést.

Lögmaður Olsen sagði í samtali við mbl.is, eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp, að hann ætti eftir að kynna sér forsendur dómsins, en sagði aðspurður að það væri nánast öruggt að sótt yrði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig frekar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert