Vonast er til þess að bráðabirgðaviðgerð á flutningaskipinu Fjordvik, sem strandaði í Helguvík í byrjun mánaðar, verði lokið fyrir jól. Þetta staðfestir Ásbjörn Helgi Árnason hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði sem sér um viðgerðina.
Viðgerðin gengur vel, að sögn Ásbjarnar Helga, og snýr að því að gera skipið sjófært. Í því felst meðal annars að gera við göt á skrokki skipsins.
Fjordvik var á leið með sement í Helguvík þegar það strandaði við hafnargarðinn aðfaranótt 3. nóvember. Fimmtán skipverjum var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar um nóttina og nokkrum dögum síðar hófst olíudæling úr skipinu, en slæmt veður setti strik í reikninginn um nokkurt skeið.
Viku eftir að skipið strandaði tókst að koma því á flot og flytja til Keflavíkur, þaðan sem það var svo flutt til Hafnarfjarðar til viðgerðar.