Finnst hótanirnar ósmekklegar

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson

„Flokki fólksins finnst það ósmekklegt og ótaktískt að hóta að skoða lögsókn vegna tölvupósta maka til OR sem skrifaðir eru í uppnámi eðli málsins samkvæmt.“ Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bókun sem Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði fram á borgarráðsfundi á fimmtudag.

Á fundinum kynnti Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um vinnustaðarmenningu og mannauðsmál hjá OR. Fulltrúar meirihlutans þakka Innri endurskoðun fyrir vönduð og góð vinnubrögð, að því er fram kemur í umræddri bókun. Þá fagna fulltrúar Sjálfstæðisflokks því að úttektin sé fram komin og að vinnustaðagreining leiði í ljós almenna starfsánægju innan OR.

Það kveður hins vegar við annan tón í bókun Kolbrúnar sem segir margt enn vera óljóst, t.d. hvort uppsögn [Áslaugar Thelmu Einarsdóttur] sé „á grunni kvörtunar um kynferðislega áreitni eða „frammistöðu.““ Þá kemur hún Einari Bárðarsyni, eiginmanni Áslaugar, til varnar og segir: „Sú gagnrýni að starfsmaður hafi komið með maka sinn á fund vegna uppsagnar er líka harkaleg. Því er haldið fram að það sé ekki löglegt en engu að síður gerði OR engar athugasemdir við það. Púður sem farið hefur í að ræða „opinbera smánun“ í tengslum við færslur maka á Facebook virkar eins og verið sé að færa fókusinn á annað.“

Í samtali við mbl.is á fimmtudag staðfesti Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, að Helga  hefði yfirgefið fundinn eftir að kynningu á úttekt Innri endurskoðunar hefði lokið en í bókun Kolbrúnar og Flokks fólksins er því mótmælt að [Helga] hafi yfirgefið fund borgarráðs áður en umræðunni um málið lauk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka