Leiklistin er langhlaup

Valur Freyr Einarsson.
Valur Freyr Einarsson. mbl.is/Eggert

Leik­ara­starfið geng­ur vissu­lega út á það að fá leik­hús­gesti til að trúa því sem fram fer á sviðinu. Og sýn­ing­in verður að halda áfram, hvað sem á bját­ar á í einka­lífi leik­ar­anna. Val­ur Freyr Ein­ars­son lék dauðvona mann dag­inn sem faðir hans lést og skor­ar á les­end­ur að gera lista yfir allt sem er frá­bært í líf­inu og ger­ir það þess virði að lifa því. 

Það er farið að rökkva þegar blaðamaður sest niður með Vali Frey á kaffi­húsi Kjar­valsstaða. Val­ur seg­ist vera að koma beint af æf­ingu í Borg­ar­leik­hús­inu þar sem hann æfir fyr­ir Rík­h­arð III sem frum­sýnt verður á stóra sviðinu um jól­in. Auk þess að vera að æfa fyr­ir það átaka­verk sýn­ir Val­ur ein­leik­inn Allt sem er frá­bært á litla sviði Borg­ar­leik­húss­ins, sem hlotið hef­ur mikið lof gagn­rýn­enda og leik­hús­gesta.

Blaðamaður sá verkið nokkr­um dög­um áður en viðtalið fór fram og viður­kenn­ir fyr­ir Vali að hann hafi þurft að minna sig á að ein­leik­ur­inn væri eft­ir er­lend­an höf­und. Svo sann­fær­andi hafi leik­ur Vals verið að halda mætti að hann væri að segja sína eig­in sögu. „Það er gam­an að heyra. Og þannig á það að vera,“ seg­ir Val­ur, „Höf­und­ur­inn, Duncan Macmill­an, er bresk­ur en Krist­ín Ei­ríks­dótt­ir, sem þýddi verkið, staðfærði sumt. Annað staðfærðum við Ólaf­ur Eg­ils­son, leik­stjóri, og breytt­um; til dæm­is því sem var of breskt á list­an­um. Við fund­um ein­hvern staðgengil sem virkaði fyr­ir okk­ur, okk­ar sam­fé­lag og okk­ar tíma. Auk þess þurfti það að passa við minn ald­ur svo þetta gengi allt sam­an. Þeir sem ekki þekkja til, vita í raun­inni ekki hvort þetta er mín saga eða ein­hvers ann­ars og þannig á þetta að virka.“

Hilm­ir Snær kynti und­ir hé­góma­skapn­um

Val­ur fædd­ist árið 1969 í Foss­vog­in­um í Reykja­vík, yngst­ur fimm bræðra, en fjöl­skyld­an flutti í Garðabæ þegar hann var tveggja ára. Eft­ir grunn­skóla lá leiðin í Mennta­skól­ann í Reykja­vík, MR.

„Mig langaði í Versló, því þrír elstu bræður mín­ir höfðu farið þangað; þar var líka kór­inn og nem­enda­fé­lagið sem ég var eitt­hvað spennt­ur fyr­ir. En svo var svo mik­il aðsókn í Versló að ég komst ekki inn og eina sem ég vissi var að mig langaði alls ekki að fara í Fjöl­brauta­skól­ann í Garðabæ. Ég var bú­inn að vera með sama fólki í skóla frá því ég var sex ára og vildi kom­ast í annað um­hverfi. Ég hafði haft MR til vara ef ég kæm­ist ekki inn í Versló, að hluta til af því að bróðir minn, sem er ári eldri en ég, hafði verið þar.“

Val­ur seg­ir að lík­lega hefði ann­ar skóli hentað hon­um bet­ur náms­lega, sér­stak­lega þar sem mik­il áhersla er lögð á stærðfræði í MR sem var ekki hans sterk­asta hlið. En hann komst í gegn­um námið og upp­götvaði nýj­an áhuga á ár­un­um í MR. „Ég vissi til dæm­is ekki að ég hefði áhuga á ís­lensku og bók­mennt­um en fékk mik­inn áhuga á þeim fög­um og fór að lesa miklu meira en ég hafði gert áður.“ Námið sótt­ist ágæt­lega að sögn Vals. „Ef ég setti áhuga og orku í það þá gekk þetta þokka­lega. En satt að segja gekk þetta allt út á það að ná bara. Ég hafði lít­inn metnað með ein­kunn­irn­ar. En um leið og það er skýrt hvað mig lang­ar til að gera, þá held ég að það sé sterk­ur vilji hjá mér að klára dæmið. Þótt ég geri það ekki með nein­um lát­um.“

Val­ur tók þátt í Herranótt, leik­list­ar­fé­lagi Mennta­skól­ans og seg­ir áhug­ann á því hafa komið mjög nátt­úru­lega. „Á fyrsta ár­inu mínu í MR höfðu þriðju bekk­ing­ar ekki leyfi til að vera í Herranótt en þá var ég plataður til að vera ljósamaður og kynnt­ist Hilmi Snæ Guðna­syni, sem var líka á fyrsta ári en hafði fengið und­anþágu til að vera með og leika. Ég lék næstu tvö ár en þegar ég var svo kom­inn í sjötta bekk, á stúd­ents­árið, ætlaði ég að taka stúd­ents­próf­in al­var­lega og sótt­ist ekki eft­ir því að vera í Herranótt. Þá fékk Hilm­ir mig til að skipta um skoðun; hann kynti und­ir hé­góma­skapn­um í mér og sagði að það vantaði einn góðan karl­kyns leik­ara í hóp­inn. Ég sló til og sé ekki eft­ir því.“

Ætlaði að verða lög­fræðing­ur á Benz

Val­ur seg­ist ekki kom­inn af leik­listar­fjöl­skyldu og hann hafi ekki haft neina leik­list­ar­bakt­eríu þegar hann var að al­ast upp í Garðabæn­um.

„Þegar ég var tólf ára ætlaði ég að verða lög­fræðing­ur, því pabbi vin­ar míns var lög­fræðing­ur og hann átti flott­an Benz,“ seg­ir Val­ur og skell­ir upp úr. „En svo var leik­ritið Gullna hliðið sett upp á svipuðum tíma. Þar lék ég Jón og það var svona í fyrsta sinn sem ég fékk á til­finn­ing­una að leik­list gæti verið skemmti­legt fyr­ir­bæri. En ekki þannig að ég sæi mig fyr­ir mér vinna við þetta. Ég man samt eft­ir því að við mamma hl­ustuðum á Útvarps­leiks­húsið í út­varp­inu öll fimmtu­dags­kvöld og ég sat al­veg límd­ur yfir því. Það fannst mér al­veg rosa­lega skemmti­legt og ég hlustaði á alls kon­ar leik­rit sem voru nú kannski ekki öll bein­lín­is fyr­ir börn en samt fannst mér þetta mjög heill­andi. Svo lík­lega hef­ur áhugi á þessu formi blundað ein­hvers staðar í mér.“

mbl.is/​Eggert

Í mennta­skóla stefndi Val­ur á lækn­is­fræði en seg­ir að þegar hann hafi dottið inn í Herranótt hafi hug­ur­inn farið að leita á önn­ur mið. Í raun hafi það samt ekki verið fyrr en hann var að út­skrif­ast úr MR sem hug­mynd­in um að fara í leik­list­ar­skóla kom upp.

Það hafa orðið ein­hver mis­tök!

Eft­ir stúd­ents­prófið fór Val­ur í ís­lensku í Há­skóla Íslands og seg­ir það hafa verið hugsað sem und­ir­bún­ing fyr­ir inn­töku­próf í Leik­list­ar­skóla Íslands. Svo sótti hann þar um, full­viss um að hann myndi fljúga inn í leik­list­ar­námið. En sú varð ekki raun­in.

„Ég fór í inn­töku­próf í Leik­list­ar­skól­an­um með vin­um mín­um, Hilmi Snæ og Bene­dikt Erl­ings­syni, og okk­ur fannst þetta próf í raun bara forms­atriði. Við kom­umst all­ir í sex­tán manna úr­takið en aðeins átta komust inn í skól­ann. Á þess­um tíma var það þannig að maður mætti upp í Leik­list­ar­skóla þar sem inn­töku­nefnd­in af­henti öll­um sex­tán bréf þar sem átta fengu nei og átta já. Ég mætti aðeins of seint og flest­ir höfðu hlaupið út í horn til að opna sitt bréf. Ég var svo hand­viss um að ég hefði fengið já að ég opnaði mitt þarna úti á miðju gólfi fyr­ir fram­an nefnd­ina. Svo sá ég bara að það stóð því miður þarna ein­hvers staðar í bréf­inu þannig að ég rétti þeim það aft­ur og sagðist halda að ég hefði fengið vit­laust um­slag. Það bara hvarflaði alls ekki að mér að ég kæm­ist ekki inn.“

Blaðamaður biðst af­sök­un­ar á því að hlæja held­ur mikið að sög­unni en Val­ur seg­ir það í góðu lagi. „Þetta var mjög fyndið. En auðvitað var þetta skell­ur. Sér­stak­lega fyr­ir egóið. Þetta var svona fyrsti skell­ur­inn en þessi vinna er hálf­gerð röð af skell­um,“ seg­ir Val­ur og bros­ir.

„Þetta var góður und­ir­bún­ing­ur að því leyt­inu til. Svo var þetta bara holl lexía. Talandi um það að vita hvað maður vill. Þarna var leik­list­in enn þá bara svona hug­mynd. Svo gekk þetta ekki og þá þurfti ég að núllstilla mæl­inn aft­ur og skoða hvort þetta væri virki­lega það sem mig langaði að gera.“

Val­ur seg­ist hafa verið svo hepp­inn að fá vinnu í Sjón­varp­inu sem aðstoðardag­skrár­gerðarmaður, eða skrifta. „Það var mik­ill lær­dóm­ur í því. Ég vann í alls kon­ar dag­skrár­gerð; í barna­efni, hjá Hemma Gunn og svo vann ég tvo vet­ur með Arth­úri Björg­vini Bolla­syni í menn­ing­arþætti sem hét Lit­róf. Þetta var góður skóli fyr­ir mig. Ég kynnt­ist fullt af góðu fólki, starf­andi lista­mönn­um í ýms­um grein­um, mynd­list, rit­list, tónlist og leik­list og drakk í mig allt sem ég gat varðandi menn­ing­una.“

Eft­ir tveggja ára starf hjá Sjón­varp­inu ákvað Val­ur að fara utan í leik­list­ar­nám og stefn­an var tek­in til Manchester á Englandi. „Það var bara svo­lítið gott að fara til út­landa og standa á eig­in fót­um. Það þurfti mjög ákveðinn vilja og ég þurfti al­veg að standa í fæt­urna með það að vilja gera þetta. Ég var ekki mjög sigld­ur í líf­inu þarna rétt rúm­lega tví­tug­ur svo þetta gerði mér mjög gott. Ég var hepp­inn með stað og stund, lenti á góðum stað í góðum skóla.“

Þegj­andi hás í tvö ár

Val­ur út­skrifaðist sem leik­ari frá Manchester Metropolit­an Uni­versity árið 1995 og flutti aft­ur heim til Íslands um sum­arið. Blaðamaður seg­ist hafa heyrt því fleygt að ís­lensk­um leik­ur­um sem hefðu lært í er­lend­um skól­um þætti erfiðara að fá verk­efni þegar heim er komið held­ur en þeim sem út­skrifuðust úr Leik­list­ar­skóla Íslands. Val­ur seg­ir að því hafi vissu­lega verið þannig farið, þótt það hafi margt breyst í þeim mál­um í dag með breyttu lands­lagi í leik­list­inni. Í dag sé til dæm­is hægt að lifa af því að leika í sjón­varpi sem ekki var mögu­legt áður.

Hann seg­ist hafa verið hepp­inn þegar hann kom heim úr námi og það hafi komið sér mjög vel að hann hafði unnið í Sjón­varp­inu og nær öll hans fyrstu verk­efni hafi verið þar. Hann hafi strax byrjað að tal­setja barna­efni og svo hafi hann unnið fyr­ir Stund­ina okk­ar og tal­setn­ingu á öðrum þátt­um hjá Sjón­varp­inu.

Svo kom kallið að taka þátt í fyrstu leik­sýn­ing­unni. Hafn­ar­fjarðarleik­húsið var að sýna Himna­ríki eft­ir Árna Ib­sen þegar aðalleik­ar­inn, Gunn­ar Helga­son for­fallaðist. „Ég stökk inn með viku fyr­ir­vara, lærði all­an text­ann á einni viku, og sýndi svo held ég ein­hverj­ar fimmtán, tutt­ugu sýn­ing­ar. Gunn­ar hafði misst rödd­ina og var svona lengi að jafna sig.

Það hlýt­ur að vera mar­tröð leik­ar­ans að missa rödd­ina?

„Já, held­ur bet­ur. Ég hef sem bet­ur fer ekki lent í því. En ég fékk hnúta á radd­bönd­in þegar ég var tólf ára og var þegj­andi hás í ör­ugg­lega tvö ár. Bara af því að ég stóð úti á fót­bolta­velli og öskraði á hina og þessa sem mér fannst ekki standa sig nógu vel,“ seg­ir Val­ur og skell­ir upp úr.

„Það er víst vitað að litl­ir, seinþroska dreng­ir stækka sig oft með rödd­inni. Og ég var al­veg þar. Stækkaði mig með rödd­inni; garg­andi og gólandi. Ég var send­ur til tal­meina­fræðings sem lét mig í raun bara gera sömu æf­ingu og leik­ar­ar gera. Hann lét mig liggja á bekk og anda inn í gegn­um nefið, al­veg ofan í maga og út um munn­inn. Hann lét mig bara anda. Bók­staf­lega. Svo var tím­inn bú­inn og ég send­ur heim. Ef­laust gerði hann eitt­hvað meira en þetta er sú æf­ing sem ég man eft­ir. En það var ekk­ert flókn­ara en þetta samt. Hann bara tengdi rödd­ina niður þangað sem stuðning­ur­inn er. Ég fór til hans í nokk­ur skipti, losnaði við hnút­ana og fékk rödd­ina aft­ur.“

Starfið bitn­ar á fjöl­skyld­unni

Val­ur hef­ur starfað bæði hjá Borg­ar­leik­hús­inu og Þjóðleik­hús­inu. Meðal þeirra sýn­inga sem hann hef­ur leikið í eru Fiðlar­inn á þak­inu, Hedda Gabler, Litla hryll­ings­búðin, Elsku barn, Dúkku­heim­ili og Mamma Mia! Þá hef­ur hann leikið í fjöl­mörg­um sjón­varpsþátt­um, stutt­mynd­um og bíó­mynd­um auk þess sem hann hef­ur tal­sett mikið af mynd­um og sjón­varpsþátt­um. Hann hef­ur hlotið marg­ar til­nefn­ing­ar til Grím­unn­ar og hlaut hana í fyrra fyr­ir best­an leik í auka­hlut­verki fyr­ir 1984. Árið 2012 fékk hann Grím­una fyr­ir besta leik í aðal­hlut­verki og sem leik­skáld árs­ins fyr­ir verkið Tengdó, sem hann skrifaði og fram­leiddi ásamt eig­in­konu sinni, Ilmi Stef­áns­dótt­ur.

Ilm­ur starfar einnig í leik­hús­inu en hún er leik­mynda- og bún­inga­hönnuður. Þau hjón­in eiga fjög­ur börn. Val­ur seg­ir það ómet­an­legt að eiga skiln­ings­rík­an og þol­in­móðan maka og fjöl­skyldu. „En auðvitað bitn­ar starfið á fjöl­skyld­unni. Maður er mikið að heim­an á kvöld­in og um helg­ar. Og það að vera leik­ari í leik­húsi er erfið vinna sem reyn­ir á, bæði til­finn­inga­lega og lík­am­lega.“ Þá seg­ir hann það hafa verið taugatrekkj­andi að vera ekki fa­stráðinn leik­ari en það eru aðeins um fimm ár síðan Val­ur fékk fa­stráðningu.

„Ef ég var í sýn­ingu sem gekk á milli ára þá var maður inni í leik­ara­hópn­um sem kom til greina í aðrar sýn­ing­ar. En ef það var ekki þannig, hafði leik­húsið frjáls­ara val með að fá ein­hvern ann­an til að breyta til. Og það gat verið óþægi­leg til­finn­ing að hafa ekk­ert fast í hendi. Ég gerði mér al­veg grein fyr­ir því að ég var með svo­kallaðan fram­færslu­kvíða. En það eru ekki mörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég væri kvíðinn yfir ýmsu öðru líka.“

Og þá kom kvíðinn

Val­ur seg­ir að um það leyti sem móðir hans lést, fyr­ir níu árum síðan, hafi hann farið að leiða hug­ann að kvíðanum. „Ég fór að skoða hvernig ég brást við í ákveðnum aðstæðum og fór að taka eft­ir alls kon­ar hlut­um í kring­um mig sem ég hafði ekki borið kennsl á sem kvíða. Svo var ég að skrifa verk sem hét Dag­bók djass-söngv­ar­ans, sem byggðist á viðtöl­um við pabba minn. Pabbi ólst upp við aðstæður sem voru erfiðar að mörgu leyti og það kom ým­is­legt fram í viðtöl­un­um sem ég vissi ekk­ert um og hann hafði aldrei talað um. Mér fannst ég vera að kynn­ast hon­um upp á nýtt í gegn­um þessi viðtöl, eða kannski í fyrsta sinn. Hann dó svo hálfu ári seinna. En í kjöl­farið á þess­um viðtöl­um við pabba minn fór ég að fara sjálf­ur í viðtöl til lækn­is sem bar kennsl á kvíðann. Og það kom í ljós að ég hef ör­ugg­lega verið kvíðinn al­veg frá grunn­skóla­aldri, en bara ekki gert mér grein fyr­ir því.“

Val­ur seg­ir kvíða birt­ast á alls kon­ar hátt, ekki síst í viðbrögðum við áreiti: „Til dæm­is heima; ef ein­hver rak sig óvart í glas sem brotnaði þá brást ég eig­in­lega alltaf reiður við. Það voru bara ósjálfráð viðbrögð. Skammaði barnið sem braut glasið og sá svo hræðilega eft­ir því. Ég man að þegar lækn­ir­inn spurði af hverju ég brygðist svona við þá gat ég ekki svarað því. En ég held að þetta hafi verið lært viðbragð; pabbi brást ör­ugg­lega svona við líka. Ég gerði mér grein fyr­ir því að þessi viðbrögð urðu ýkt­ari ef ég var und­ir miklu álagi og ef ég hafði mikl­ar áhyggj­ur, en viðbragðið hafði ekk­ert með glasið að gera eða þann sem braut það. Þetta sner­ist bara um minn kvíða. Og það geta orðið alls kon­ar uppá­kom­ur sem maður þarf smám sam­an að læra að tækla, og stoppa nei­kvæð, ósjálfráð viðbrögð í fæðingu. Mér hef­ur farið mikið fram. Eft­ir því sem maður kynn­ist sjálf­um sér bet­ur og því meira sem maður nær að rekja ofan af hlut­un­um; því bet­ur tekst manni að vera með lífið í jafn­vægi.“

Öll sjálfs­skoðun af hinu góða

Enn fer Val­ur í viðtöl hjá lækn­in­um, nú fimm árum eft­ir að hann fór til hans fyrst, og finnst það gera sér gott. Hann seg­ir viðtöl­in hafa hjálpað sér að sjá hlut­ina í nýju ljósi.

„Og for­dóm­ar mín­ir fyr­ir svona and­leg­um veik­ind­um, þung­lyndi og kvíða og þess hátt­ar, hafa breyst mikið á þess­um tíma. Þetta er bara mann­legt eðli; við erum öll meira og minna að glíma við eitt­hvað svona, við erum bara mis­jafn­lega meðvituð um það. Svo finnst mér öll svona sjálfs­skoðun af hinu góða. Þar sem maður lær­ir bet­ur á sjálf­an sig, skil­ur sjálf­an sig bet­ur, skil­ur bet­ur til­finn­ing­ar sín­ar og hvaðan þær spretta. Hætt­ir að skamm­ast sín fyr­ir þær og nær að tala um þær.“

Krefst leik­list­in ekki mik­ill­ar sjálf­skoðunar?

„Jú, það er enda­laus há­skóli að vera leik­ari. Það er alltaf nýtt viðfangs­efni sem maður þarf að leggja tals­vert mikla vinnu í með bak­rann­sókn­um og skoða í þaula. Auðvitað skoðar maður hlut­ina mis­djúpt eft­ir eðli verk­efn­is­ins en eðli mann­eskj­unn­ar er rann­sókn­ar­efni sem aldrei þrýt­ur og það er nú verk­efnið sem við erum alltaf að glíma við. Svo þegar maður eld­ist í starfi og þrosk­ast þá sér maður hlut­ina frá öðru sjón­ar­horni en maður gerði og er ekki eins gagn­rýn­inn eða með jafn mikla for­dóma og áður. En því meiri þroska sem maður nær sjálf­ur, því meiri þroska nær maður á sviðinu og í sinni list. Ég finn al­veg sam­verk­un á þessu tvennu; það að vera með sjálf­an sig í skoðun og vinna í sjálf­um sér. Ég er ekk­ert að tala um eitt­hvað mjög ýkt, í raun­inni bara það að horf­ast í augu við veik­leika sína og skoða hvað það er sem manni mis­lík­ar og vill reyna að bæta. Ég nefndi áðan öskrin úti á fót­bolta­velli, því ég var taps­ár, og sýndi mikla reiði. Eft­ir á að hyggja var sú reiði ör­ugg­lega sprott­in af kvíða og ein­hverju öðru sem var á bak við reiðina. Reiði sprett­ur yf­ir­leitt af því að manni finnst maður vera beitt­ur ein­hvers kon­ar órétti. Kannski órétt­lætið að vera að tapa í þessu til­felli en þarna voru sak­laus­ir fót­bolta­fé­lag­ar, sem voru ekki að standa sig nógu vel að mínu mati,“ seg­ir Val­ur og hlær.

„En í raun fannst mér ég ekki standa mig nógu vel sjálf­ur, var óánægður með sjálf­an mig, en ég áttaði mig ekki á því á þarna.

Lenti á vegg og kveið því að leika

Blaðamanni leik­ur for­vitni á því hvort Val­ur hafi ein­hvern tíma leikið hlut­verk sem hon­um hafi þótt virki­lega leiðin­legt að leika.

Máttu kannski ekki svara því?

„Sko, það er allt gott í hófi,“ seg­ir Val­ur og skell­ir upp úr. „End­ur­tekn­ing­in get­ur verið erfið. Á tíma­bili var ég mjög mikið í barna­leik­rit­um. Eig­in­lega á hverju ári í fimm, sex ár. Og alltaf í stór­um barna­sýn­ing­um sem gengu mikið og vel. Þá fannst mér það ekki leng­ur nógu mik­il áskor­un. Það þarf að vera áskor­un.“

Hann seg­ir að á þess­um tíma hafi hann verið bú­inn að vera lengi á sama stað og fund­ist hann spóla í sama hjólfar­inu. Þótt hann hafi verið í vinnu hafi hon­um ekki fund­ist hann kom­ast neitt áfram og ekki ná að þrosk­ast.

„Þá er stutt í bit­urðina og manni finnst allt öðrum að kenna, að ein­hver ann­ar beri ábyrgð á stöðunni. Maður er ekk­ert voðal­ega dug­leg­ur að beina ljós­inu að sjálf­um sér. En það ber eng­inn ábyrgð á þess­um nema maður sjálf­ur og ef maður er ekki sátt­ur þá verður maður að bregðast við og standa og falla með því. Á þess­um tíma kom tíma­bil þar sem ég hugsaði með mér að kannski væri kröft­un­um bet­ur varið í eitt­hvað annað.“

Hugsaðirðu þá jafn­vel um að hætta að leika?

„Það hef­ur aldrei hvarflað mjög al­var­lega að mér að hætta. Einu sinni fékk ég burn-out til­finn­ingu. Þá var ég bú­inn að vera í Mamma Mia! og leik­árið var búið að vera rosa­legt hjá mér. Ég lék yfir 150 sýn­ing­ar á einu leik­ári, í sam­tals þrjú leik­ár. Und­ir lok­in fékk ég þreytu­ein­kenni og kláraði batte­ríið al­gjör­lega. Við lék­um líka óvenju­lengi, út júní, og það var búið að vera mikið að gera all­an vet­ur­inn. Ég lenti bara á vegg; fékk vægt þung­lyndi og kveið fyr­ir því að mæta í vinn­una og leika sýn­ingu. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fann fyr­ir svo­leiðis til­finn­ing­um. Og Mamma Mia! var sýn­ing sem þurfti mjög mikla orku, gleði og bros. Ég fann fyr­ir þess­ari burn-out til­finn­ingu í svona mánuð. Svo komst ég bara yfir þetta. Ég fór í sum­ar­frí; náði að hvíla mig vel og þetta jafnaði sig. En í kjöl­farið minnkaði ég við mig vinnu og hægði á mér leik­árið á eft­ir.“

Leik­ar­inn forðast ekki sjálf­an sig

Val­ur seg­ist ekki hafa lent í því að eiga erfitt með að aðskilja sig frá þeirri per­sónu sem hann er að leika. „Það er frek­ar í hina átt­ina; þegar maður á í erfiðleik­um með að setja sig í ein­hver spor. Leik­list­in geng­ur alltaf út á það að setja sig í spor ein­hvers ann­ars og skilja viðkom­andi. Ég óttaðist það þegar ég var að gera leik­ritið 1984, sem var hug­mynda­heim­ur sem var svo fjarri mér . Það var í raun fasismi sem þessi maður sem ég lék, trúði á al­veg inn í innsta kjarna. Og til að geta leikið það þarf maður ein­hvern veg­inn að reyna að til­einka sér þá trú og geta sann­fært aðra um það. Og til að það verði ekki bara eitt­hvað al­mennt þarf maður ein­hvern veg­inn að gera það sér­tækt og setja sig al­gjör­lega í þau spor. Ég óttaðist fyr­ir­fram að það yrði mjög erfitt en svo gekk það að lok­um. En það var mik­il vinna; mik­il yf­ir­lega og niður­brot á texta til að finna hvernig ég gat nálg­ast það til að geta dregið það inn í mig.“

Hann bæt­ir við að leik­ar­inn geti aldrei forðast sjálf­an sig. „Maður er alltaf að vinna með sjálf­an sig að ein­hverju leyti. En svo eru sum hlut­verk eins og þetta í verk­inu Allt sem er frá­bært sem bein­lín­is ganga út á það að blekkja fólk, reyna að draga það eins ná­lægt leik­ar­an­um og hægt er, eða mann­eskj­unni.“

Hef­urðu þurft að glíma við sjálfs­traustið?

„Já, ég hef oft glímt við heil­mik­inn vanda með það. En það eru ákveðin skil við tíu ár í leik­ara­starf­inu; fyrstu tíu árin eru mót­un­ar­ár að mörgu leyti. Í fyrsta lagi er maður full­ur af hug­mynd­um um sjálf­an sig sem eru kannski ekk­ert endi­lega al­veg rétt­ar. Mann lang­ar kannski að leika eitt­hvað sem hent­ar manni alls ekki en maður ber ekki kennsl á það sjálf­ur. Ég lék til dæm­is Bald­ur í Litlu hryll­ings­búðinni en hefði frek­ar viljað leika tann­lækn­inn. En ég hefði bara ekk­ert haft í það hlut­verk að gera! Það var alls ekki hlut­verk sem hefði hentað mér. En það eru alls kon­ar svona hug­mynd­ir sem maður er með í koll­in­um sem hafa lítið með raun­veru­leik­ann að gera, rang­hug­mynd­ir kall­ast þær.“ 

Ekk­ert kem­ur fyr­ir­hafn­ar­laust

Val­ur seg­ir leik­list­ina vera lang­hlaup. „Þú þarft að bera gæfu til þess að læra af mis­tök­um en líka að þrosk­ast, bæði sem mann­eskja og listamaður. Þetta þarf að fara sam­an og það er heil­mik­il vinna. Ekk­ert kem­ur fyr­ir­hafn­ar­laust til manns.“

Hann tek­ur sopa af kaff­inu og bæt­ir við að fer­ill fólks sé mjög mis­jafn. Sum­ir séu bráðþroska og verði fljótt ótrú­lega fær­ir tækni­lega, hafi mik­inn til­finn­ingaþroska og geti stigið inn í hlut­verk sem ættu í raun­inni ekki að vera við þeirra hæfi. „Þeir geta það samt. Og geta borið ábyrgðina. Svo eru aðrir sem þurfa að fá að þrosk­ast í ró­leg­heit­um, fá mátu­lega stóra bita og stækka og þrosk­ast hægt og ró­lega. Eld­ast á hæg­um hita. Ég er einn af þeim leik­ur­um.“

Það hlýt­ur að krefjast mik­ill­ar þol­in­mæði?

„Já. Og það get­ur verið erfitt að halda keðjunni tengdri; gæta þess að hún slitni ekki í sund­ur. Það eru sum­ir sem lenda í því. Þeir fá kannski ekk­ert að gera og fara að vinna við eitt­hvað annað og detta út úr leik­list­inni í eitt ár. Og þá dett­ur maður út úr þess­um bransa. Það er mjög fljótt að ger­ast. Bara um leið og þú ert hætt­ur að sjást, þá gleym­istu fljótt. Ég tók mjög snemma ákvörðun um að gera ekk­ert annað. Bara leika. Þá fer maður í gegn­um alls kon­ar tíma­bil, mis­góð og stund­um þarf maður að kyngja súru og hugsa með sér að maður ætli að reyna að kom­ast í gegn­um þetta .... Þessa niður­læg­ingu,“ seg­ir Val­ur og hlær.

„Maður bíður og sér hvort það komi ekki eitt­hvað annað betra. Og svo smám sam­an ger­ist það. Ein­hver sagði að það væri alltaf pláss fyr­ir gott fólk í leik­hús­inu og það er rétt. Mér finnst rosa­lega gam­an að sjá leik­ara sem maður sér taka út þrosk­ann; verða betri og betri og betri. Auðvitað spil­ar vinnu­semi þar inn í, en líka sjálfs­traust og fleira. Og að vera feng­in ein­hver ábyrgð sem maður stend­ur und­ir og þá stækk­ar fólk um eitt núm­er.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út í dag.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert