Sauðnaut á Austurvelli

Sauðnaut á Austurvelli
Sauðnaut á Austurvelli Ljósmynd/Magnús Ólafsson

Sumarið 1929 var haldin óvenjuleg sýning á Austurvelli en þar voru í fjóra heila daga saman komnir sjö sauðnautskálfar sem fluttir höfðu verið til landsins með mótorbátnum Gottu VE 108.

Fólk dreif víða að til að berja fyrirbrigðin augum enda höfðu fáir Íslendingar séð sauðnaut á þessum tíma. Gripunum var lítið um athyglina gefið og reyndu af veikum mætti, svo sem eðlið bauð þeim, að mynda varnarvegg.

Gotta hélt í mikla ævintýraför til austurstrandar Grænlands tæpum tveimur mánuðum áður í því augnamiði að fanga nokkur sauðnaut sem orðið gætu fyrsti vísir að slíkri ræktun hér á landi, en af þessu hermir Halldór Svavarsson í nýrri bók, Grænlandsför Gottu.

Fljótlega kom í ljós að fjarskiptatæki bátsins virkuðu ekki og fyrir vikið spurðist ekkert til ellefu manna áhafnar í um mánuð, eða þangað til Gotta rakst á danskt skip úti fyrir austurströnd Grænlands. Sendi það loftskeyti til Íslands sem birt var í Morgunblaðinu sem keypt hafði einkaleyfi á fréttaflutningi af ferðinni. Vísi til nokkurs ama.

Gottumenn lentu í ýmsum hremmingum á leiðinni, báturinn klemmdist til að mynda á milli ísjaka skammt frá Grænlandi og varð síðar innlyksa í lóni sem myndast hafði innan um ísinn. Þá felldi áhöfnin ellefu hvítabirni og fjölmörg fullvaxin sauðnaut en þegar á hólminn var komið áttuðu menn sig á því að þeir réðu ekkert við þessi 400 kg flikki. Til að komast að kálfunum þurfti að fella fullorðnu dýrin sem slógu skjaldborg um afkvæmi sín. Kálfarnir sjö komust alla leið til landsins en týndu einn af öðrum tölunni um haustið, að því er virðist af ýmsum ástæðum. Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem út kemur í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert