Áætla má að þrjótum sem senda fölsk fyrirmæli frá stjórnendum fyrirtækja og félaga um greiðslur inn á erlenda reikninga takist að svíkja út hundruð milljóna króna í ár. Bönkunum tekst að stöðva eða endurheimta nærri jafnháa fjárhæð áður en glæpamenn ná peningunum.
Þá eru ótalin þau svik sem aldrei eru tilkynnt en þau eru talin veruleg, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag. Hrina svokallaðra stjórnendasvika eða fyrirmælafalsana virðist ríða hér yfir. Komið hefur fram að hún beinist nú að íþróttafélögum, foreldrafélögum grunnskóla og fleiri félögum en fyrirtæki eru alltaf vinsæll skotspónn slíkra svika.
Lögreglan og bankarnir segja að besta leiðin til þess að koma í veg fyrir þessi svik sé að gjaldkeri sem fær skilaboð í tölvupósti um óvanalegar greiðslur til útlanda hringi í yfirmanninn eða fari til hans til að athuga hvort fyrirmælin séu raunverulega frá honum.
Hægt er að stöðva greiðslurnar ef hratt er brugðist við en sjaldnast er hægt að endurheimta féð ef það er komið á reikninga erlendis.