Tilefni til að taka mál FH til athugunar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Velferðarráðuneytið hefur lokið umfjöllun um tvær stjórnsýslukærur fimm bæjarfulltrúa í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem báðar tengjast ákvörðun meirihlutans um knatthús í Kaplakrika. Var báðum kærum kærenda vísað frá. 

Fram kemur í niðurstöðum beggja stjórnsýslukæranna það mat heilbrigðisráðherra að tilefni sé til að taka málsmeðferð Hafnarfjarðarkaupstaðar til athugunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga um frumkvæðiseftirlit.

Heilbrigðisráðherra var falið að úrskurða í þessum málum eftir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lýsti sig vanhæfan á grundvelli stjórnsýslulaga til að fjalla um þau.

Í stjórnsýslukærunum var farið fram á ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar varðandi málið og einnig frestun réttaráhrifa ákvarðana meðan málið væri til meðferðar.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins, að niðurstaða velferðarráðuneytisins sé sú að þegar ákvörðun sé tekin af fjölskipuðu stjórnvaldi verði ekki talið að minnihluti þess teljist hafa svo beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni að þeir teljist aðilar málsins í skilningi stjórnsýsluréttar.

„Af þessari ástæðu er báðum kærum kærenda, sem eru aðal- og varafulltrúar í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, vísað frá.“

Fjallað er um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa rammasamkomulags við Fimleikafélag Hafnarfjarðar í úrskurði ráðuneytisins. „Niðurstaðan er sú að ákvæði 2. mgr. 114. gr. sveitarstjórnarlaga um frestun réttaráhrifa verði ekki túlkað svo rúmt að það feli í sér heimild til að fresta réttaráhrifum gerðra samninga. Kröfu um frestun réttaráhrifa er því hafnað,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert