Í viðmiðunarstundaskrám er hlutfallið sem grunnskólum ber að verja til kennslu í téðum greinum ein af hverjum fimm mínútum í yngstu bekkjunum og fer niður í eina af hverjum þrettán mínútum í elstu bekkjunum. Að áliti Ingibjargar Aspar er þetta sláandi lágt hlutfall.
„Ekki nóg með það, þegar rýnt er í stundaskrár grunnskóla kemur í ljós að skólarnir eru í fáum tilvikum að fylgja þessum stundaskrám. Við sjáum að á miðstigi, sem er 5. til 7. bekkur, uppfylla 80% skóla í Reykjavík ekki þessi viðmið. Það er mjög alvarlegt,“ segir hún.
Ingibjörg Ösp segir þetta koma sér illa þegar fyrir liggur að skortur á fólki með iðnmenntun á vinnumarkaði sé mikill, þannig að það hamli jafnvel þróun á starfsemi fyrirtækja.
Ingibjörg Ösp segir mikilvægt að bæta aðgengi fólks sem hefur sérmenntun á sviði list- eða iðngreina að kennslu. „Eins og staðan er í dag tekur það eitt til tvö ár að öðlast kennsluréttindi, fyrir litla sem enga launahækkun. Það er vitaskuld ekki hvetjandi og alls ekki ásættanlegt. Fyrir vikið er mikilvægt að stytta og einfalda réttindaferlið og breyta regluverkinu með hliðsjón af því,“ segir Ingibjörg Ösp og bætir við að vandinn sé ekki bara bundinn við grunnskólann; þetta eigi líka við á leikskóla- og framhaldsskólastiginu.
Þekkt eru dæmi um að sumir kennarar eigi auðveldara með að vekja áhuga nemenda á einstökum greinum en aðrir. Þetta á alveg eins við um list- og verkgreinar, að dómi Ingibjargar Aspar. „Það eru yfirleitt bestu kennararnir sem hafa hugsjónina, brenna fyrir starfið og ná hópnum með sér. Við heyrum þær sögur en því miður ekki nógu oft,“ segir hún.
Greinina má lesa í heild sinni í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í gær.