„Við höfum fjölda dæma þar sem fólk þorir varla út úr herberginu sínu af því það er fólk með erfiðan geðsjúkdóm í næsta herbergi. Heilu deildirnar eru í gíslingu því aðrir íbúar og ættingjar eru hræddir og starfsfólkið hættir unnvörpum því það kann ekki að takast á við þetta,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV).
Hjúkrunarheimili landsins eru ekki lengur skilgreind sem heimili eingöngu fyrir aldraða veika einstaklinga, 67 ára eða eldri sem ekki geta búið sjálfstætt, heldur einnig fyrir ungt fólk með alvarlega geðsjúkdóma og fatlaða einstaklinga sem þurfa á umönnun að halda. Í dag búa um 200 einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum og eru um átta prósent allra íbúa. Um er að ræða fólk sem jafnvel hefur ekki náð fertugsaldri. Pétur segir mikilvægt að þessum einstaklingum standi til boða hentugri úrræði en að flytja inn á hjúkrunarheimili þar sem mikill meirihluti íbúa er aldraðir einstaklingar með aðrar þarfir.
Það verði að hafa rétt íbúanna í huga. Sérstaklega þar sem um litlar deildir sé að ræða. „Hver er réttur íbúanna sjálfra ef einn íbúi er með mjög erfiða sjúkdóma og þarf mikla aðstoð. Er jafnvel með hegðunarerfiðleika. Hver eru þolmörk íbúa gagnvart því? Er rétt að öll orka starfsfólks á deildinni fari í að sinna þessum íbúa og að aðrir fái minni þjónustu því þeir eru svo óheppnir að lenda við hliðina á einhverjum mjög erfiðum.“
SFV stendur fyrir málþingi á morgun sem ber yfirskriftina Hvar á ég heima? en þar verður fjallað um unga íbúa á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og ýmis vandkvæði tengd slíkri sambúð.
Pétur segir ekki síður nauðsynlegt að huga að lífsgæðum þessara ungu íbúa. „Við viljum yngra fólki allt það besta í þeirra lífi en við setjum siðferðisleg spurningarmerki við það að ungt fólk, jafnvel þrítugt eða fertugt, sé að flytja inn á hjúkrunarheimili þar sem meðalaaldurinn er kannski 85 til 90 ár.“ Ekki er um að ræða sérstök rými fyrir þessa einstaklinga, heldur dvelja þeir á sömu deildum og aldraðir. „Fólk er inni á lítilli deild þar sem eru kannski tíu aðrir íbúar,“ útskýrir hann, en fyrirkomulagið er afar óhentugt að hans mati.
„Yngra fólk er á allt öðru lífsskeiði en þeir sem eldri eru og hefur aðrar félagslegar þarfir, það er með aðrar væntingar og þrár í lífinu. Það er með öðruvísi matar- og tónlistarsmekk og vill ræða aðra hluti en aldraðir. Okkur finnst að árið 2018 ættum við að vera komin lengra og geta boðið á fleiri úrræði við hæfi fyrir yngra fólk. Að sjálfsögðu er það þannig að við björgum alltaf málunum og gerum okkar besta, en við teljum lífsgæði yngra fólks vera það mikilvæg að þörf sé á öðrum úrræðum.“
Þá bendir Pétur á að upp gæti komið sú staða að konur á barneignaaldri, sem búi inni á hjúkrunarheimilum, yrðu ófrískar. Hann spyr hvernig tækla eigi þá stöðu. „Á barnið að alast upp á hjúkrunarheimili þar sem flestir eru aldraðir í kring?“
Hann segir vert að hafa í huga að um sé að ræða heimili fólks, ekki sjúkrahús þar sem það dvelji tímabundið. „Fólk er kannski að fara að búa þarna í 30 til 40 ár. Meðaldvalartími aldraðra á hjúkrunarheimilum er orðinn undir tveimur árum, þannig ef fólk býr í 30 ár á hjúkrunarheimili þá er að meðaltali búið að skipta 15 sinnum um íbúa í hverju einasta herbergi í kringum viðkomandi. Við sem samfélag hljótum að geta boðið þessu fólki upp á betri lífsskilyrði heldur en þetta. Og þá tala ég af virðingu fyrir öllum þeim sem koma að málinu, bæði þeim sem eldri eru og ættingjum þeirra og þeim yngri eru. En það þarf að taka þessa erfiðu umræðu. Þetta er ekki heppilegt ástand. Við viljum að allir fái úrræði og þjónustu við sitt hæfi. Við teljum núverandi stefnu ekki fela það í sér.“
Líkt og áður sagði eru íbúar yngri en 67 ára um átta prósent íbúa hjúkrunarheimila, en Pétur segir stefnu stjórnvalda í þessum efnum skjóta skökku við á sama tíma og biðlistar lengist og lengist. Framundan eru meðal annars breytingar á Öldrunarheimili Akureyrar á þremur hjúkrunarrýmum þannig að þau geti mætt þörfum sjúklinga með alvarleg geðræn vandamál.
„Það hafa nýlega verið sagðar fréttir af því að biðlistar inn á hjúkrunarheimili hafi aldrei verið lengri en akkúrat núna og þeir hafa lengst gríðarlega frá síðasta ári. Landspítalinn hefur aldrei verið með fleiri einstaklinga inniliggjandi sem eru að bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili,“ segir Pétur en samkvæmt upplýsingum frá landlækni biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými í september, 20 prósent fleiri en í sama mánuði 2017 þegar 342 voru á biðlista.
Skemmst er að minnast frétta af konu á tíræðisaldri í síðustu viku sem liggja þurfti inni á salerni á bráðaöldrunardeild Landspítalans vegna fráflæðisvanda og plássleysis.
„Á sama tíma eru átta prósent þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum ungt fólk sem gæti búið þar áratugum saman. Þetta hlutfall mun aukast með óbreyttri stefnu. Viljum við gera það?“
Pétur segir það allavega mikilvægt að ungt fólk búi saman á deild í stað þess að dreifa einstaklingum inn á aðrar deildir. „Það væri kannski hægt að eyrnamerkja eina til tvær deildir á nýjum hjúkrunarheimilum yngra fólki, jafnvel aldursskipta því frekar.“
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, mun flytja erindi á málþinginu á morgun, en hún tekur undir með Pétri.
„Okkur hjá Öryrkjabandalaginu þykir þetta algjörlega óásættanlegt. Sérstaklega í dag þegar við erum að reyna að hverfa frá allskyns stofnanavæðingu og fylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Að setja ungt fólk inn á heimili með öldruðu fólki sem það á enga samleið með er bara að mínu viti mjög gróft.“
Hún segir þessa stefnu lýsa algjöru úrræðaleysi stjórnvalda. „Fólk myndi sjálft ekki þurfa að vera í þessari stöðu. Ekki að það sé slæmt að vera innan um gamalt fólk, en ungt fólk vill fá að vera í kringum sína jafnaldra. Þetta eru svo ólíkir hópar. Þetta er erfitt bæði fyrir fólkið sjálft og fjölskyldur þess sem heimsækja það. Fólk gengur öðruvísi um þegar það er innan um gamalt fólk.“
Þuríður segir að það væri mun skynsamlegra að horfa meira í átt til notendastýrðrar persónulegra aðstoðar (NPA) til að þjónusta þessa einstaklinga.
Það eitt að ungt fólk þurfi að fara í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili fyrir aldraða geti lagst mjög á sálina á því. Hvað þá að slík heimili séu hugsuð sem varanleg búsetuúrræði.
Hún bendir á að oft vanti mikið upp á sérhæfingu starfsfólks á hjúkrunarheimilum, sem geti komið illa við fólk. „Bæði hentar það þessu fólki illa að vera saman og þetta býður upp á talsverða erfiðleika fyrir starfsfólk. Það er verið að henda öllum saman í sama kassann sem þurfa mismunandi úrræði og þjónustu.“
Málþingið fer fram á morgun, þriðjudaginn 27. nóvember, á Hótel Reykjavík Natura við Nauthólsveg, á milli 13.30 og 15.30.