Rjúpnaveiðitímabilinu 2018 lauk í gær og síðasta helgin gekk vonum framar að sögn Áka Ármanns Jónssonar, formanns Skotveiðifélags Íslands (Skotvís).
Rjúpnaveiði var heimil í fimmtán daga á þessu ári, sem skiptust á helgar í október og nóvember og ráðlögð heildarveiði var 67.000 rjúpur. Tímabilið var lengt um eina helgi, þ.e. nýliðna helgi, og veður var sérlega gott.
„Þetta er fyrsta helgin þar sem er glæsilegt rjúpnaveiðiveður um allt land. Bestu skilyrðin eru þegar mikið frost er og stilla, bjartviðri og komin snjólína í fjöll,“ segir Áki. „Það hefur verið lægðagangur á þessum helgum, leiðindatíð. Maður hefði farið þessa helgi ef maður hefði vitað þetta fyrir fram. Ég fór um síðustu helgi og var annan daginn í þoku og hinn daginn í tuttugu metrum á sekúndu og fimmtán stiga hita. Það eru ekki alveg aðstæðurnar sem maður leitar í,“ segir hann.
Veiðitölur fyrir 2018 munu liggja fyrir eftir áramót, segir Áki í umfjöllun um rjúpnaveiðina í ár í Morgunblaðinu í dag.