Forsætisnefnd Alþingis telur ekkert gefa til kynna að hátterni Ásmundar Friðrikssonar í tengslum við endurgreiddan aksturskostnað hafi verið andstætt siðareglum alþingismanna. Þá telur nefndin ekki tilefni til þess að hefja almenna rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna.
Þetta kemur fram í svari forsætisnefndar við erindi Björns Leví Gunnarssonar.
Forsætisnefnd telur ekki að fram hafi komið upplýsingar eða gögn sem sýni að til staðar sé grunur um refsiverða háttsemi sem kæra beri sem meint brot á reglum forsætisnefndar um endurgreiðslu aksturskostnaðar til lögreglu.
Björn Leví óskaði eftir því að forsætisnefnd kannaði sérstaklega hvert og eitt ferðatilefni þar sem þingmaður hefði fengið endurgreiddan aksturskostnað og hvort ástæða væri til þess að höfða gegn þeim siðareglumál. Til vara, féllist forsætisnefnd ekki á þá kröfu, óskaði Björn eftir því að athugað yrði hvort Ásmundur hefði brotið siðareglur vegna endurgreiðslna sem hann fékk fyrir aksturskostnað.
Í svari forsætisnefndar kemur fram að gildandi lög og reglur um endurgreiðslu aksturskostnaðar geri ráð fyrir því að fundir sem alþingismenn boða til eða séu boðaðir á séu vegna starfa þeirra sem alþingismanna eða annars sem af starfi þeirra leiðir. Þannig sé þingmönnum veitt nokkuð svigrúm, en þeir beri ávallt ábyrgð á því að akstur sé vegna starfa þeirra. Engar vísbendingar hafi komið fram um að þingmenn hafi framvísað tilefnislausum akstursreikningum og ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að í framkvæmd skrifstofunnar hafi ekki verið gengið úr skugga um að tilgreint tilefni ferðar hafi verið vegna starfa alþingismanna.
Fréttin hefur verið uppfærð.