„Með þessum nýja reiðvegi opnast okkur hestamönnum alveg nýjar slóðir í Heiðmörkinni. Raunar má segja að þetta sé góð viðbót, því víða um skógræktarsvæðið liggja slóðir og brautir sem gaman er að feta í lengri og skemmri útreiðartúrum,“ segir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður Hestamannafélagsins Spretts.
Á vegum Spretts hefur að undanförnu verið unnið að gerð nýs reiðvegar um svonefnda Grunnuvatnaleið í Heiðmörk; það er svæðið sem er norðan og austan við Vífilsstaðavatn. Þetta er sömuleiðis í nágrenni Kjóavalla, þar sem er hesthúsabyggð félagsmanna í Spretti. Reiðvegurinn nýi var svo opnaður formlega í síðustu viku við athöfn, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra – og þess utan hestamaður og dýralæknir – klippti á borða og óskaði fólki góðrar ferðar.
Hestamannafélagið Sprettur var stofnað 2012 með sameiningu Gusts í Kópavogi og Andvara í Garðabæ. Aðstaða félagsins er á landamærum þessara tveggja bæjarfélaga og innan þeirra beggja. Á undanförnum árum hefur verið unnið að margvíslegri uppbyggingu á félagssvæðinu og segir Sveinbjörn reiðvegagerðina hluta af þeim pakka.
Sjá samtal við Sveinbjörn í heild í Morgunblaðinu í dag.