Meðallaun rafiðnaðarmanna fyrir dagvinnu eru 598 þúsund á mánuði. Dreifing launanna er þó mikil því meðaldagvinnulaun 25% félagsmanna innan Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) eru undir 475 þúsund kr. Ánægja með launakjör rafiðnaðarmanna hefur minnkað frá því í fyrra.
Þetta eru nýjar niðurstöður kjarakönnunar RSÍ sem kynntar voru á um 100 manna ráðstefnu trúnaðarmanna sl. föstudag. Í samantekt sambandsins kemur fram að sláandi sé að sjá í könnuninni að í byggingariðnaði eru laun félagsmanna enn mjög lág þrátt fyrir að mestur uppgangur hafi verið í þeirri grein.
Laun fjórðungs félagsmanna sem starfa í byggingariðnaðinum eru undir 411 þúsund kr. á mánuði fyrir dagvinnu. ,,Ljóst er einnig að þegar félagsmenn eru spurðir um þörf á hækkun launa þá eru það félagsmenn í tölvu- og byggingariðnaði sem telja sig þurfa mestu launahækkunina,“ segir í samantekt RSÍ, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.