Fjórar konur hér á landi hafa greinst með fágætt eitilfrumukrabbamein sem hugsanlegt er að tengist brjóstapúðum með hrjúfu yfirborði. Ekki er þó vitað hvort konurnar voru með slíka púða í brjóstum sínum. Þetta kemur fram í frétt á vef Krabbameinsfélags Íslands, en fjallað hefur verið um málið í erlendum miðlum í dag.
Púðarnir hafa verið græddir í milljónir kvenna um allan heim, en frönskum skurðlæknum hefur verið ráðlagt að hætta notkun þeirra og nota í staðinn brjóstapúða með sléttu yfirborði. Í frétt The Guardian um málið segir, að að minnsta kosti 615 konur sem hafa verið með púða með hrjúfu yfirborði í brjóstum sínum hafi fengið meinið og að minnsta kosti 16 þeirra hafi látist.
Meinið nefnist anaplastic large cell lymphoma eða ALCL en umræðuna um hugsanleg tengsl þess við brjóstapúða má rekja aftur til ársins 1997. Hún styrktist svo árið 2011 þegar yfirvöld, meðal annars í Bretlandi og Bandaríkjunum lögðu áherslu á að bæði heilbrigðisstarfsfólk og fólk sem fengi brjóstapúða væri meðvitað um hugsanleg tengsl við krabbameinið, að því er fram kemur á vef Krabbameinsfélagsins.
Auk þeirra fjögurra kvenna sem hafa greinst á Íslandi með ALCL frá árinu 1999, greindust einnig 23 karlar hér á landi með ALCL á árunum 1989-2018.
Franska lyfjastofnunin hyggst boða almenning, heilbrigðisstarfsfólk, rannsakendur og aðra hagsmunaaðila til fundar í byrjun febrúar 2019 þar sem er ætlunin er að fara yfir stöðu þekkingar á hugsanlegum tengslum brjóstapúða við ALCL og gefa álit á málinu. Þar til ályktun af fundinum liggur fyrir mælir franska lyfjastofnunin með því að brjóstapúðar með slétt yfirborð séu notaðir.
Á vef Krabbameinsfélagsins kemur fram að erfitt sé að meta tengsl milli brjóstapúða og ALCL vegna þess hve krabbameinið er fátítt og skráningum á notkun og tegundum brjóstapúða er ábótavant. Almennt séu um 85-90% allra brjóstapúða með hrjúft yfirborð, en Krabbameinsfélagið hafi ekki getað fengið upplýsingar um hvaða tegund púða sé mest notuð á Íslandi.