Stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði hafa komið sér saman um átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði í kjölfar 12. samráðsfundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem haldinn var á föstudaginn.
Forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu sameiginlega tillögu á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Formenn hópsins verða Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Mun Anna Guðmunda Ingvarsdóttir taka sér leyfi frá störfum og sinna þessu verkefni af fullum þunga. Auk þeirra verða í nefndinni þrír fulltrúar frá ríki, tveir frá sveitarfélögum og þrír frá heildarsamtökum á vinnumarkaði.
Hópurinn skal hafa samráð við aðra starfshópa um húsnæðismál. Átakshópurinn skal kynna heildstæða lausn á viðfangsefnum sínum fyrir stjórnvöldum og heildarsamtökum á vinnumarkaði eigi síðar en 20. janúar 2019. Íbúðalánasjóður mun vinna með hópnum ásamt öðrum sérfræðingum, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
„Nú er mikilvægt að við tökum höndum saman og finnum raunhæfar lausnir og aðgerðir sem geta haft áhrif sem allra fyrst. Í mínum huga er mikilvægast að við göngum nú öll í takt og finnum úrræði sem gagnast sem allra flestum en ljóst er að öruggt húsnæði er einn af grundvallarþáttum í því velferðarsamfélagi sem við viljum byggja upp hér á landi. Enda þótt hópurinn sé átakshópur þá vona ég að þær tillögur sem hópurinn skilar muni ekki aðeins leysa stöðuna til skemmri tíma heldur einnig hafa áhrif á framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála hér á landi“, er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í tilkynningunni.
Þá segir, að það liggi fyrir að á árunum 2013-2017 hafi íbúðum hér á landi fjölgað um 6.500. Að mati Íbúðalánasjóðs hefði íbúðum þurft að fjölga mun meira, eða um hátt í 16.000 til þess að mæta að fullu þeirri þörf fyrir íbúðir sem skapaðist á tímabilinu vegna fólksfjölgunar, breytinga á aldurssamsetningu og fjölgunar íbúða í skammtímaleigu.
Uppsafnaður skortur á íbúðum endurspeglast í miklum verðhækkunum á íbúða- og leigumarkaði og bráðum vanda þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði. Til að vinna á þeim vanda er útlit fyrir að áfram verði þörf á mikilli fjölgun íbúða næstu árin og mikilvægt er að sú uppbygging verði í samræmi við þarfir landsmanna, að því er segir í tilkynningunni.