Yfirvöld í Nepal hafa staðfest að lík Kristins Rúnarssonar og Þorsteins Guðjónssonar, sem fórust í október 1988 við fjallgöngu á fjallinu Pumori í Nepal, séu fundin.
Leifur Örn Svavarsson, frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, fór fyrir hópi innfæddra fjallamanna sem náði í líkamsleifar þeirra og komu þeim á sunnudag til Katmandú. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum.
„Hafa lík þeirra Kristinn og Þorsteins nú verið afhent aðstandendum. Bálför þeirra fór fram í Katmandú í dag kl. 14.15 að íslenskum tíma. Áætlað er að aðstandendur komi með öskuker þeirra heim til Íslands um næstu helgi.
Aðstandendur ítreka þakkir til allra þeirra sem komið hafa að máli þessu og fyrir allan þann hlýhug sem þeim hefur verið sýndur,“ segir enn fremur.