Ómar Friðriksson Snorri Másson
Góður gangur er sagður vera á viðræðum samninganefnda Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um endurnýjun kjarasamninga og stór viðfangsefni nú þegar komin upp á borðið í kjaraviðræðunum.
Í gær var haldinn fjórði formlegi samningafundurinn frá því að viðræður fóru í gang og sá fimmti er fyrirhugaður í dag. Einnig munu SA eiga í dag fund með VR.
„Mér finnst þetta ganga vel,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í gær. Viðsemjendur hafi náð að komast yfir mikið efni og séu farnir að ræða stærstu viðfangsefnin í væntanlegri samningagerð, þar með talið vinnutímaskilgreiningar og um styttingu vinnutíma. ,,Það eru þeir þættir sem báðar fylkingar hafa lýst yfir að þær vilji skoða. Þetta er ekki einfalt viðfangsefni en mér finnst gangurinn vera góður á þessum fyrstu fundum,“ segir Halldór í umfjöllun um viðræðurnar í Morgunblaðinu í dag.