Hjartað ávallt hjá Áslaugu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mitt hjarta hefur alltaf verið hjá Áslaugu, alveg frá upphafi þessa máls,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, spurð út í ummæli Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um að of lítið hafi verið gert úr upplifun Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns hjá Orku náttúrunnar.

Þórdís Lóa segist ekkert vilja tjá sig um hvort hún er sammála Heiðu Björg eða ekki. „Ég hef sagt það skýrt frá upphafi að okkur ber skylda til að innleiða menningu þar sem svona lagað er ekki liðið. Við verðum að horfast í augu við að hér er um klassíska #metoo-menningu að ræða,“ segir hún almennt um málið sem kom upp hjá OR.

Hún segir niðurstöðu stjórnar Orkuveitunnar um að fara í úttektina á vinnustaðamenningu fyrirtækisins og taka málið „sterkum og öruggum tökum“ vera góða. Ekki megi þó gleyma því að verið er að ræða um líf fólks. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn verði að sýna því skilning.

Viðbragðsáætlun vegna orðsporsáhættu 

Þórdís Lóa bætir við að skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna OR sé mjög góð og nefnir að mikilvægt sé þegar verið er að reka stórar einingar að vera með áhættumat.

„Orðsporsáhætta er eitt af þessum klassísku áhættuatriðum sem öll stór fyrirtæki verða að vera með viðbragðsáætlanir við. Þess vegna fagna ég því að innri endurskoðun bendi á það í sinni skýrslu að Orkuveitan eigi að skoða það,“ segir hún og tekur fram að málið sé rétt að hefjast hjá stjórn OR, enda hafi í skýrslunni verið bent á marga hluti. 

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert