Lyfjaleifar í íslensku umhverfi

Lyfjaleifar fundust hérlendis.
Lyfjaleifar fundust hérlendis. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Umhverfisstofnun stóð í sumar fyrir sýnatökum í vatni í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi í Evrópu. Sýni voru tekin í hafinu við Klettagarða þar sem er að finna stærstu skólpútrásir höfuðborgarsvæðisins, í Varmá neðan Hveragerðis og við bakka Mývatns við Reykjahlíð.

Um er að ræða efni sem eru á sérstökum vaktlista Evrópusambandsins og hafa m.a. að geyma lyfjaleifar, kynhormón og varnarefni. Að auki var kannað hvort hér á landi fyndust lyfjaleifar sem eru á sérstökum vaktlista í Svíþjóð, að því er kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Niðurstöður mælinganna á sýnunum eru þær að í íslensku umhverfi er að finna 4 efni af 16 á vaktlista Evrópusambandsins. Efnin sem um ræðir eru clarithomycin, diclofenac og erythromycin sem eru efni sem finnast í sýkla- og bólgueyðandi lyfjum. Að auki fannst kynhormónið estrógen í sýnum. Engin varnarefni (skordýra- eða plöntuvarnarefni) af listanum fundust í íslensku sýnunum.

Af þeim 20 efnum sem eru á sænska vaktlistanum yfir lyfjaleifar fundust 15 í sýnunum sem voru tekin hér á landi. Þar voru á ferðinni efni sem finnast m.a. í geðlyfjum, hjarta- og blóðþrýstingslyfjum, sýklalyfjum, verkjastillandi og lyfjum sem tekin eru við sveppasýkingum og kynsjúkdómum.

Niðurstöðurnar benda til að töluvert magn lyfja berist út í umhverfið með frárennsli. Lyfin geta borist í frárennsliskerfin með ýmsum hætti, eins og frá búfjárhaldi, með útskilnaði frá fólki eða þegar fólk losar sig við lyf í frárennsliskerfið. Fráveitur á Íslandi búa ekki yfir búnaði til að hreinsa lyfjaleifar úr fráveituvatninu.

Í tilkynningunni segir Umhverfisstofnun mikilvægt að skila inn til apóteka öllum lyfjaafgöngum sem falla til á heimilum til að þeim verði fargað á réttan hátt og endi ekki í umhverfinu. Rannsóknir í Evrópu sýni að lyfjaleifar finnast orðið víða í umhverfinu, m.a. í drykkjarvatni og í vatnalífverum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert