Vilja íbúakosningu um Helguvík

Helguvík.
Helguvík. Ljósmynd/Reykjanesbær

„Tilgangurinn með undirskriftasöfnuninni er að knýja bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ til þess að halda bindandi íbúakosningu og fá þannig fram vilja meirihluta íbúa sveitarfélagsins til málsins,“ segir Einar Már Atlason, formaður íbúasamtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík, í samtali við mbl.is vegna undirskriftasöfnunar sem samtökin hófu í dag en rúmlega eitt hundrað undirskriftir hafa safnast þegar þetta er ritað.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá íbúasamtökunum að flestir flokkar sem boðið hefðu fram fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ hafi gagnrýnt stóriðjumálin í Helguvík og mengandi stóriðju þar sé hafnað í stjórnarsáttmála núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Samtökin kalli eftir því að leitað verði álits íbúa á málinu með kosningu.

Einar Már segir að undirskriftasöfnunin verði í gangi næstu vikurnar, bæði á rafrænu formi og pappírsformi. Hann segir að þótt íbúasamtökin standi fyrir undirskriftasöfnuninni snúist hún aðeins um það að leggja málið í dóm íbúa sveitarfélagsins með lýðræðislegum hætti. Hver niðurstaða kosningarinnar verði muni síðan einfaldlega koma í ljós komi til þeirra.

Spurður hvort hann muni una því ef kosningin færi fram og niðurstaðan yrði á þá leið að meirihluti íbúa Reykjanesbæjar vildi sjá stóriðju í Helguvík segir Einar Már að þá lægi fyrir lýðræðislegur vilji íbúanna sem kæmi sér vissulega vel fyrir málstað stóriðjusinna. Hann væri hins vegar bjartsýnn á að niðurstaðan yrði í samræmi við afstöðu íbúasamtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert