Aðeins 86 milljónir fengust upp í tæplega 12 milljarða kröfur vegna gjaldþrots Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Milestone, en það nemur um 0,7%. Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu voru veðkröfur í búið samtals 133,8 milljónir og fengust 86,4 milljónir upp í þær kröfur. Ekkert fékkst hins vegar upp í almennar kröfur, en samtals voru lýstar kröfur upp á 11,99 milljarða.
Guðmundur var í fyrra dæmdur ásamt þeim Karli og Steingrími Wernerssonum til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða vegna millifærslna sem voru gerðar á reikning Ingunnar Wernersdóttur, systur bræðranna, en með því létu þeir félagið fjármagna kaup sín á hlutafé Ingunnar í Milestone. Áður höfðu þremenningarnir hlotið fangelsisdóm vegna viðskiptanna.
Guðmundur var framkvæmdastjóri Milestone á þessum tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi og færðar í bókhald og var með prókúru fyrir félagið.
Þá voru þremenningarnir einnig dæmdir til að greiða þrotabúinu 126 milljónir vegna lánveitingar Milestone til einkahlutafélagsins Sáttar árið 2007, en félagið var í eigu forstjóra Milestone. Var lánið notað til að greiða fyrir hlutabréf annars félags forstjórans sem keypti hlut í Öskum Capital, dótturfélagi Milestone.