8 undir fimmtugu á hjúkrunarheimilum

139 einstaklingar undir 67 ára búa á hjúkrunarheimilum hér á …
139 einstaklingar undir 67 ára búa á hjúkrunarheimilum hér á landi. mbl.is/Þorvaldur

139 einstaklingar yngri en 67 ára búa á hjúkrunarheimilum hér á landi, en ekki 200 eins og fram hefur komið í tengslum við umræðu um það hvort ungt fatlað fólk og fólk með geðrænan vanda eigi að búa á slíkum heimilum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu, en Sjúkratryggingar Íslands tóku saman upplýsingarnar að beiðni ráðuneytisins.

Í samtali við mbl.is í vikunni sagði Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu mjög óheppilegt að einstaklingar með svo ólíkar þarfir byggju saman á hjúkrunarheimilum. 

„Við höf­um fjölda dæma þar sem fólk þorir varla út úr her­berg­inu sínu af því það er fólk með erfiðan geðsjúk­dóm í næsta her­bergi. Heilu deild­irn­ar eru í gísl­ingu því aðrir íbú­ar og ætt­ingj­ar eru hrædd­ir og starfs­fólkið hætt­ir unn­vörp­um því það kann ekki að tak­ast á við þetta,“ sagði Pétur.

20 einstaklingar af þessum 139 búa á sérhæfðum hjúkrunardeildum í Mörk og Skógarbæ í Reykjavík sem ætlaðar eru yngra fólki og 42 einstaklingar í hjúkrunarrýmum í Ásí í Hveragerði og á Fellsenda í Dölum, sem ætluð eru fólki með geðraskanir. Að þessum einstaklingum frátöldum eru 77 einstaklingar á landsvísu sem búa í almennum hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum víðs vegar um landið. 8 einstaklingar í þessum hópi eru undir fimmtugu.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) stóðu fyrir málþingi í gær þar sem rætt var hvort það væri rétt stefna að ungt fólk flytti inn á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og byggi þar áratugum saman. Og hvort allir ættu að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þetta sé ekki rétt. Enginn fari inn á hjúkrunarheimili nema að undangengnu formlegu mati á heilsu og færni sem leiði í ljós að viðkomandi geti ekki lengur búið á eigin heimili, þrátt fyrir félagsþjónustu, heimahjúkrun og önnur stuðningsúrræði.

Það sé hins vegar rétt að lögum samkvæmt geti þeir sem eru yngri en 67 ára fengið búsetu á hjúkrunarheimili ef nauðsynlegt sé talið samkvæmt færni- og heilsumati.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að þótt dæmi séu um að ungt fólk fari inn á hjúkrunarheimili til varanlegrar búsetu eigi það að heyra til undantekninga og ekki að eiga sér stað nema ljóst sé að önnur úrræði hafi verið fullreynd.

„Sveitarfélögin hafa ríkar skyldur gagnvart fötluðu fólki og innleiðing notendastýrðar persónulegrar aðstoðar mun tvímælalaust efla möguleika fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu til muna. Ég er sammála því að gagnvart því fólki sem býr við þær heilsufarsástæður að ekki er unnt að veita því fullnægjandi aðhlynningu nema í hjúkrunarrými er mikilvægt að geta boðið upp á sérhæfðar deildir, líkt og eru fyrir hendi í Mörk og Skógarbæ í Reykjavík. Þetta getur hins vegar verið vandkvæðum bundið í fámennari sveitarfélögum og brýnt að við þær aðstæður takist stjórnendur hlutaðeigandi stofnana á við þær áskoranir með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi,“ segir Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert