Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ætlar ekki að láta staðar numið í máli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í tengslum við endurgreiddan aksturskostnað þrátt fyrir að forsætisnefnd Alþingis hafi gefið þau svör að hátterni hans hafi ekki verið andstætt siðareglum alþingismanna.
Nefndin telur heldur ekki tilefni til þess að hefja almenna rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna.
Í morgunútvarpi Rásar 2 sagði Björn Leví að opinberar viðurkenningar væru á því að Ásmundur hefði notað bíl í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi viðurkennt það í Kastljósinu. Einnig hafi forseti Alþingis sagt í sjónvarpsviðtali að akstur í prófkjörsbaráttu eigi ekki að vera hluti af endurgreiðslum fyrir ferðakostnað. „Það kemur á óvart að þetta skuli vera svarið. Þetta er mjög skrítið svar ef ég á að segja alveg eins og er,“ sagði Björn Leví um svar forsætisnefndar.
Spurður hvort Ásmundur hafi gerst sekur um fjársvik sagði Björn Leví að hann væri búinn að endurgreiða eitt tilvik. „Það eru ekki allir sem fá að vera heiðarlegir eftir á og skila lambalærinu sem þeir tóku út úr búð. Ásmundur fær það greinilega,“ sagði hann og taldi ólíklegt að tilvikið sé það eina sem um ræðir.
Björn Leví sagði það skyldu sína sem starfsmaður fjárlaganefndar að fylgjast með því hvernig almannafé er notað og nefndi að ýmislegt væri athugavert við málið. Forsætisnefnd sé greinilega búin að loka sínum dyrum og að siðanefnd muni ekki taka það fyrir.
Hann sagði það „algjört bull“ að hann eða Píratar séu að leggja Ásmund í einelti eins og hann hefur haldið fram. „Ég óska honum ekki þeirrar reynslu að lenda í einelti en ef hann myndi gera það þá myndi hann sjá muninn.“
Hann sagðist telja að Ásmundur viti upp á sig sökina og að hann hafi játað að hann hafi svikið fé út úr þinginu. Forsætisnefnd hefði átt að vísa málinu til lögreglu.