Fjórar farþegaþotur, sem flugfélagið WOW air ákvað að fækka um í flugflota sínum, fóru af landi brott í gær. Þetta staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins.
Fram kom í fréttatilkynningu frá WOW air í gær að fækkunin í flugflotanum væri liður í endurskipulagningu á rekstri félagsins en legið hefði fyrir að minnka þyrfti flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi.
Spurð hvort fækkunin muni að sama skapi leiða til fækkunar starfsmanna WOW air segir Svana að það sé ekki ljóst. Hins vegar hafi þessar farþegaþotur ekki verið í mikilli notkun yfir vetrartímann. Vetraráætlunin væri talsvert minni í sniðum miðað við sumaráætlunina.
Starfsmannafundur fór fram hjá WOW air í morgun í höfuðstöðvum félagsins en aðspurð segir Svanhvít að einungis hafi verið um að ræða hefðbundinn hálfsmánaðarlegan fund.