„Hríslast um mann kaldur hrollur“

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvað getur maður sagt þegar tuttugu manns missa vinnuna og þar af tæplega helmingur sem tilheyrir okkar félagi? Þetta er bara svartur dagur í sögu okkar ef svo má að orði komast,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is vegna uppsagna í dag í álveri Norðuráls á Grundartanga.

„Það er auðvitað ömurlegt þegar starfsmönnum með starfsreynslu, eins og sumir þarna eru, nánast frá upphafi verksmiðjunnar, er sagt upp störfum. Þannig að ég verð að leyfa mér að segja það að ég harma mjög þessar aðgerðir. Þær eru fullharkalegar að mínum dómi.“

Sérstaklega, segir Vilhjálmur, í ljósi þess að fyrirtækið hafi nánast skilað afar góðri afkomu frá upphafi að undanskildu einu ári og hafi skilað miklum hagnaði nánast allt frá byrjun.

„Það liggur alveg fyrir í mínum huga að þegar launakostnaður af heildarveltu er um eða yfir 10% þá eru um 90 önnur prósent þar sem hægt er að leita hagræðingar. En það virðist vera lenska á íslenskum vinnumarkaði að þegar örlítið gefur á bátinn, ef svo má að orði komast, þá sé niðurskurðarhnífnum beitt grimmilega gagnvart þeim sem hafa tekið þátt í því að byggja upp góða afkomu á undanförnum árum og áratugum.“

Fólkið á gólfinu sem ekki síst skapar hagnaðinn

Vilhjálmur segir að þegar starfsmenn hafi eytt starfsævinni jafnvel frá upphafi, en hluti umræddra starfsmanna væri kominn á síðustu ár starfsævinnar, þá væri staðan enn hryggilegri þótt það væri alltaf hryggilegt þegar starfsfólk missti vinnuna.

„Ég höfða náttúrulega bara til fyrirtækja af þessari stærðargráðu að sýna samfélagslega skyldu sína sem er fólgin í því að varðveita starfsmenn sína eins og kostur er og leita allra annarra leiða í því að leita hagræðingar þegar örlítið syrtir í álinn. Eins og ég segi hefur þetta fyrirtæki verið rekið með miklum glæsibrag í gegnum tíðina, skilað eigendum þess góðri afkomu sem og íslensku þjóðarbúi. Það sést bara á skatttekjum sem greiddar hafa verið af þessu fyrirtæki á undanförnum árum,“ segir Vilhjálmur.

„Þetta hefur verið vel rekið fyrirtæki og það er mikilvægt fyrir stjórnendur þess að átta sig á því hverjir það eru sem skapa þessa stöðu. Það eru ekki eingöngu þeir sem eru í efstu lögum fyrirtækja heldur er það fólkið sem er á gólfinu sem skapar þessar stöðu. Þannig að þetta er ömurlegur dagur. Við Akurnesingar höfum nú þurft að finna fyrir æði þungum höggum á undanförnum misserum og nú er bara mál að linni ef svo má að orði komast.“

„Við erum búin að horfa upp á flaggskipin okkar eins og HB Granda þurrkast hér út nánast í einu vetfangi og þegar svona stórt skarð verður líka í þessari grunnstoð okkar sem eru þessi öflugu fyrirtæki sem eru uppi á Grundartanga, þegar það bætist við þá skal ég alveg fúslega viðurkenna að það hríslast um mann kaldur hrollur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert