Netin enn í umferð innan EES

Lyfjastofnun hafa ekki borist tilkynningar um að netin hafi valdið …
Lyfjastofnun hafa ekki borist tilkynningar um að netin hafi valdið tjóni hér á landi. mbl.is/Eggert

Net frá John­son & John­son sem notuð eru til að lag­færa blöðru-, leg- og endaþarms­sig kvenna og hafa skroppið sam­an og þornað inni í líköm­um sjúk­linga eru enn í um­ferð inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins.

Í ljós hef­ur komið að fram­leiðand­inn, John­son&John­son, vissi af þess­um eig­in­leika net­anna, sem hef­ur valdið sjúk­ling­um mikl­um sárs­auka og skert lífs­gæði þeirra, áður en þau fóru á markað árið 2005.

Net­in hafa verið notuð hér á landi og hafa gilda CE-merk­ingu. Lyfja­stofn­un hafa ekki borist til­kynn­ing­ar um að net­in hafi valdið tjóni hér á landi, en sam­kvæmt lög­um um lækn­inga­tæki er öll­um þeim sem fram­leiða, markaðssetja, selja, eiga eða nota lækn­inga­tæki skylt að til­kynna frá­vik, galla eða óvirkni, sem gæti eða hef­ur valdið tjóni, til Lyfja­stofn­un­ar.

Sam­bæri­leg­um eft­ir­lits­stofn­un­um, sem hafa eft­ir­lit með lækn­inga­tækj­um, inn­an EES hafa held­ur ekki borist slík­ar til­kynn­ing­ar. Fjöldi kvenna í Bretlandi hef­ur þó höfðað mál gegn fram­leiðand­an­um, sem og breska heil­brigðis­kerf­inu, NHS, vegna notk­un­ar á net­un­um.

Þá hafa net­in verið tek­in úr sölu og af lista yfir leyfi­leg­an lækn­inga­búnað í Ástr­al­íu og í Nýja-Sjálandi hef­ur ígræðsla neta í leggöng kvenna verið al­farið bönnuð vegna efa­semda um ör­yggi og ár­ang­ur slíkra aðgerða.

Í sam­tali við mbl.is á síðasta ári sagði Krist­ín Jóns­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir á kvenna­deild Land­spít­al­ans, að net­in frá John­son & John­son hafi verið notuð hér á landi um ára­bil en væru ekki notuð leng­ur. Hún sagði vanda­málið við net­in að þau hafi ekki verið rann­sökuð nægi­lega áður en þau komu á markað, og að þau hafi síðan verið notuð of mikið og í til­vik­um sem ekki ætti að nota þau.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert