Net frá Johnson & Johnson sem notuð eru til að lagfæra blöðru-, leg- og endaþarmssig kvenna og hafa skroppið saman og þornað inni í líkömum sjúklinga eru enn í umferð innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Í ljós hefur komið að framleiðandinn, Johnson&Johnson, vissi af þessum eiginleika netanna, sem hefur valdið sjúklingum miklum sársauka og skert lífsgæði þeirra, áður en þau fóru á markað árið 2005.
Netin hafa verið notuð hér á landi og hafa gilda CE-merkingu. Lyfjastofnun hafa ekki borist tilkynningar um að netin hafi valdið tjóni hér á landi, en samkvæmt lögum um lækningatæki er öllum þeim sem framleiða, markaðssetja, selja, eiga eða nota lækningatæki skylt að tilkynna frávik, galla eða óvirkni, sem gæti eða hefur valdið tjóni, til Lyfjastofnunar.
Sambærilegum eftirlitsstofnunum, sem hafa eftirlit með lækningatækjum, innan EES hafa heldur ekki borist slíkar tilkynningar. Fjöldi kvenna í Bretlandi hefur þó höfðað mál gegn framleiðandanum, sem og breska heilbrigðiskerfinu, NHS, vegna notkunar á netunum.
Þá hafa netin verið tekin úr sölu og af lista yfir leyfilegan lækningabúnað í Ástralíu og í Nýja-Sjálandi hefur ígræðsla neta í leggöng kvenna verið alfarið bönnuð vegna efasemda um öryggi og árangur slíkra aðgerða.
Í samtali við mbl.is á síðasta ári sagði Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, að netin frá Johnson & Johnson hafi verið notuð hér á landi um árabil en væru ekki notuð lengur. Hún sagði vandamálið við netin að þau hafi ekki verið rannsökuð nægilega áður en þau komu á markað, og að þau hafi síðan verið notuð of mikið og í tilvikum sem ekki ætti að nota þau.