Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spyr hvar Fjármálaeftirlitið (FME) hafi verið þegar við raunverulega þurftum á því að halda til að verja hagsmuni almennings og sjóðsfélaga lífeyrissjóða. Hann skrifaði færslu á Facebook-síðu sína fyrr í kvöld þar sem hann brást við fréttatilkynningu sem birtist á vef FME fyrr í dag þar sem lagalegt hlutverk lífeyrissjóðanna var áréttað.
Tilkynningin var birt eftir að Ragnar Þór lét þau ummæli falla í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi að verkalýðssamtök ættu að beita áhrifum sínum inn í lífeyrissjóðina. Þau ummæli hafa valdið töluverðum titringi í dag.
Fjármálaeftirlitið sagði að slíkt sé óheimilt og Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sagði þetta ekki vera þann tón sem hún átti von á frá Ragnari.
„Ég átti alveg von á að heyra frá stjórnendum kerfisins,“ sagði Ragnar Þór í viðtali á K 100 í dag og kvað ákveðna aðila sem stýri kerfinu hafa hag af óbreyttu ástandi.
Sagði hann lífeyrissjóðina hafa verið notaða í gegnum tíðina, til að mynda við gjaldmiðlasamninga sem þeir hafi verið plataðir í í aðdraganda hrunsins og svo við fjárfestingaævintýri á borð við kísilver United Silicon. „Þar töpuðust milljarðar,“ sagði Ragnar Þór. Slíkum málum hafi hins vegar verið sópað undir teppið frekar en að takast á við þau.
„Þegar kemur að því til dæmis að kjarasamningar eru lausir og það er ólga á vinnumarkaði þar sem stefnir í átök, þá spyr maður sig er skynsamlegt og ábyrgt af lífeyrissjóðunum að fjárfesta í atvinnulífinu þegar svo ber undir? Er það skynsemi að fjárfesta í fyrirtækjum þegar verkföll eða átök eru yfirvofandi?“ sagði hann jafnframt í viðtalinu í dag.
„Viðbragðshraði FME er nokkuð áhugaverður þegar kemur að þeirri spurningu hvort lífeyrissjóðir eigi að skrúfa fyrir fjárfestingar í atvinnulífinu þegar vinnudeilur eru yfirvofandi eða átök,“ skrifaði Ragnar Þór á Facebook í kvöld.
„Ekki heyrðist mikið í FME þegar sjóðirnir okkar voru notaðir sem opin veski útrásarinnar! Ekki verður nú sagt að ferilskrá FME sé sérlega glæsileg. Væri þá ekki ábyrg nálgun að fjárfesta ekki þegar óvissa er mikil? Það er ekkert sem bannar það!“