Forstjóri WOW setur þrýsting á kröfuhafa

Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW hinn 5. nóvember.
Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW hinn 5. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með bréfi sem Skúli Mogensen sendi í gær til hóps þeirra fjárfesta sem þátt tóku í skuldabréfaútboði WOW air í september síðastliðnum, var þrýstingur settur á þá sömu aðila að liðka fyrir kaupum Icelandair Group á öllu hlutafé félagsins.

Til þess að Icelandair Group geti keypt félagið og tekið eignir þess og skuldir inn á efnahagsreikning samstæðu sinnar þurfa kröfuhafar WOW air og leigusalar þess að gefa eftir tilteknar kröfur og eftir atvikum liðka fyrir breyttum skilmálum í samningum sínum við félagið. Að öðrum kosti er afar ósennilegt að hluthafar Icelandair Group muni á hluthafafundi sem boðaður hefur verið að morgni næstkomandi föstudags, samþykkja yfirtöku á félaginu.

Í fyrrnefndu bréfi fór stofnandi WOW air yfir þá stöðu sem félagið er nú í en ítrekaði jafnframt að með breytingum á skilmálum hinna nýútgefnu skuldabréfa væru það ekki aðeins viðtakendur bréfsins sem þyrftu að gefa eftir kröfur sínar, heldur einnig hann sjálfur. Í bréfinu kemur fram að af þeim 50 milljónum evra sem söfnuðust í útboðinu hafi hann persónulega lagt til í útboðinu 5,5 milljónir evra í formi reiðufjár. Það hafi hann gert því hann hafi „verið viss um að fjármögnunin myndi nægja til að fleyta okkur fram að almennu hlutafjárútboði innan næstu 18 mánaða“, eins og það er orðað.

Í bréfinu er m.a. ítrekað að rekstur félagsins á fjórða ársfjórðungi hafi gengið verr en áætlanir stóðu til. Í tengslum við skuldabréfaútboðið í haust var gengið út frá því að tap WOW á yfirstandandi ári myndi nema 3,2 milljörðum króna. Af orðum forstjórans að dæma stefnir flest í að það verði meira, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinnu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert