Sýna meiri ábyrgð með að fjárfesta ekki

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir almenning ekki finna fyrir …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir almenning ekki finna fyrir því verði skrúfað fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna til fjármálakerfisins. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Lífeyrissjóðirnir sýna frekar ábyrgð með því að halda að sér höndum á meðan ólga er á vinnumarkaði frekar en að fjárfesta í atvinnulífinu á slíkum tíma. Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Huldu Bjarna á K100 nú síðdegis.

Ummæli Ragnars Þórs í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi hafa vakið töluverðan styr, en þar hafði hann orð á því að verkalýðssamtök ættu að beita áhrifum inn í lífeyrissjóðina. Hefur Fjármálaeftirlitið m.a. í dag haft orð á því að slíkt sé óheimilt og þá sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þetta ekki vera þann tón sem hún átti von á frá Ragnari.

„Ég átti alveg von á að heyra frá stjórnendum kerfisins,“ sagði Ragnar og kvað ákveðna aðila sem stýri kerfinu hafa hag af óbreyttu ástandi.

Sagði hann lífeyrissjóðina hafa verið notaða í gegnum tíðina, til að mynda við gjaldmiðlasamninga sem þeir hafi verið plataðir í í aðdraganda hrunsins og svo við fjárfestingaævintýri á borð við kísilver United Silicon. „Þar töpuðust milljarðar,“ sagði Ragnar Þór. Slíkum málum hafi hins vegar verið sópað undir teppið frekar en að takast á við þau.

Hafa verið notaðir miskunnarlaust

„Ég get haldið áfram endalaust um það hvernig lífeyrissjóðir hafa verið notaðir miskunnarlaust og kerfisbundið fyrir ákveðnar viðskiptablokkir og í ákveðin verkefni,“ sagði hann og bætti við að mörg brot hafi verið framin á sjóðsfélögum í gegnum tíðina í tengslum við  fjárfestingarákvarðanir sjóðanna.

„Þegar kemur að því til dæmis að kjarasamningar eru lausir og það er ólga á vinnumarkaði þar sem stefnir í átök, þá spyr maður sig er skynsamlegt og ábyrgt af lífeyrissjóðunum að fjárfesta í atvinnulífinu þegar svo ber undir? Er það skynsemi að fjárfesta í fyrirtækjum þegar verkföll eða átök eru yfirvofandi? Þetta er lykilatriði og ég myndi segja að það væri frekar ábyrgt af stjórnendum lífeyrissjóðanna að halda að sér höndum þegar staðan á vinnumarkaði er með þeim hætti sem virðist stefna í, heldur en að koma fram með þeim hætti sem þeir gera nú.“

Kvaðst Ragnar Þór ekki vera að gagnrýna daglegt starf lífeyrissjóðanna, en að félagsmenn sem eigi sjóðina hafi ekkert um það að segja hvernig þeim er stýrt þrátt fyrir framlag sitt.

„Við þurfum hins vegar að horfa upp á lífeyrissjóðina okkar neita að koma að sanngjarnri uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði,“ sagði hann. „Og við erum ekki að tala um að niðurgreiða neitt, eða að gefa einhverri kynslóð peninga á kostnað annarra.“ Einungis sé verið að tala um að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu á einhverju sem skiptir lífskjör alls þorra almennings miklu máli.

Bara tvennt eftir í stöðunni

Ragnar Þór segist skilja gagnrýni á orð sín upp að vissu marki, en segir þó hugmyndir um að lífeyrissjóðirnir komið að uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði vera innan lagalegs ramma. „Það er innan þess lagaramma sem þeir starfa. Þeir hafa hins vegar þvertekið fyrir að koma að slíkri uppbyggingu en taka svo á móti þátt í United Silicon og þar töpuðust milljarðar.“

Þeir sem greiði í lífeyrissjóðina hafi hins vegar ekkert um það að segja hvernig þeir hagi sér. „Við höfum ekkert að segja nema í gegnum stéttarfélögin um það hverjir sitja í stjórn lífeyrissjóðanna. Þess vegna segi ég að það er bara tvennt orðið eftir í stöðunni fyrir fólkið í landinu. Það er annaðhvort að fá atvinnurekendur út úr stjórn lífeyrissjóðanna eða þá að sjóðsfélagarnir sjálfir taki völdin og kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna.

Nefndi Hulda þá að ójafnvægið og ólgan kunni mögulega að valda fólki áhyggjum og spurði Ragnar Þór út í þau orð sem hann lét falla í gær um möguleg skæruverkföll og að setja fjármálakerfið í verkfall.

„Fólk auðvitað spyr sig bara hvað er fram undan?“ sagði Hulda. „Fólk finnur ekkert fyrir því ef við skrúfum fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna til fjármálakerfisins,“ fullyrti Ragnar Þór. „Fólk fer áfram með sín börn í skóla og leikskóla á morgnana. Það breytist ekkert. Ég myndi hins vegar frekar segja að það væri ábyrgðahluti lífeyrissjóða ef það eru átök yfirvofandi á vinnumarkaði, ef samningar eru lausir, að þá geta þeir réttlætt það að skrúfa fyrir fjárfestingar í fjármálakerfinu eða að fjárfesta í fyrirtækjum almennt á meðan að það er óvissa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert