Á annan tug milljarða eru í verkfallssjóðum verkalýðsfélaganna í ASÍ, sem þau geta gripið til komi til verkfallsátaka í vetur. Drífa Snædal, forseti ASÍ, staðfestir að vinnudeilusjóðir félaganna standi almennt vel enda hafi safnast í þá á löngum tíma.
Um 3,6 milljarðar eru í vinnudeilusjóði VR og tæpir 2,7 milljarðar voru í verkfallssjóði Eflingar um áramót.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verkfallssjóðina vera mjög sterka. „VR á um tólf milljarða í eignum og sjóðum. Af því eru 3,6 milljarðar í vinnudeilusjóði og hann fer stækkandi. Við getum hæglega fært til hærri upphæðir ef við viljum. Við gerðum það síðast árið 2015 þegar litlu munaði að það yrðu átök á vinnumarkaði,“ segir hann.
,,Ef við förum hins vegar í einhvers konar verkfallsskærur með öðrum stéttarfélögum eða t.d. á ASÍ-grunni, þá munu fjármagnstekjur þessara sjóða duga til þess að halda því úti í mjög langan tíma. Þar erum við að tala um mun smærri hópa, sem gætu þá verið í einhvers konar átökum eða aðgerðum en væru á fullum launum. En ef við förum í allsherjarverkfall þá dugar þetta náttúrlega skammt.“
Hann tekur þó fram að fólk eigi ekki að óttast að allt muni loga í allsherjarátökum „þar sem við munum ekki fara í allsherjarverkföll,“ segir Ragnar Þór. ,,Það er ekki sú leið sem við viljum fara. Við teljum að það sé mun árangursríkara að vinna þá frekar með öðrum stéttarfélögum í að mynda einhvers konar pressu ef til þess kemur en ég náttúrlega vonast til þess að við náum að loka þessu,“ segir hann um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag.