„Dapurt,“ segir Inga Sæland

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er náttúrulega bara dapurt og ég verð bara að segja að maður er enn að átta sig á þessu,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is vegna upptöku þar sem nokkrir þingmenn úr Miðflokknum og flokki Ingu ræddu meðal annars um hana á Klaustur bar 20. nóvember þar sem ýmis ljót voru látin falla um hana.

Þannig kallaði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, Ingu meðal annars „húrrandi klikkaða kuntu“ og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, sagði hana geta grenjað en ráða ekki við að stjórna flokknum. Þeir hafa í kjölfar frétta af málinu báðir sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir biðjast afsökunar á ummælum sínum. Aðrir þingmenn viðstaddir voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins.

„Það kemur mér kannski frekar á svona lagað skuli viðgangast og það af ekki ómerkari einstaklingum en kjörnum fulltrúum sem skipa hér löggjafarvaldið. Það kemur mér bara mjög á óvart. Það er það sem mér er aðallega brugðið við. Að öðru leyti get ég voðalega lítið tjáð mig um þetta,“ segir Inga ennfremur. Hvað Miðflokkinn varðar þá segist hún ekki bera neina virðingu fyrir því siðferði sem ummæli þingmanna þess flokks lýsi.

Tekur afsökunarbeiðni Karls Gauta til greina

„Við komum náttúrulega saman, stjórnin í Flokki fólksins. Þetta er þannig vaxið mál að það verður að taka á því og það vil ég gera með okkar frábæru grasrót, stjórn og félögunum okkar. Að við komum öll saman og vinnum úr þessu,“ segir Inga en til stendur að fundurinn hefjist klukkan 17:00 síðdegis. Spurð um stöðuna í þingflokknum segir hún.

„Hvað lítur að okkur sjálfum í Flokki fólksins þá held ég að við séum bara sama frábæra fjölskyldan sem við höfum verið bara síðan við vorum kjörin á þing. Þetta hefur ekki kastað neinni rýrð á það,“ segir Inga. Spurð hvort enginn trúnaðarbrestur hafi orðið vegna málsins segist hún ekki líta svo á. Vissulega hafi hún hins vegar verið baktöluð.

„Það er náttúrulega verið að baktala mig, það kemur mér á óvart þannig. En ég hef verið beðin afsökunar líka og ég ætla bara að trúa á þá einlægu afsökunarbeiðni,“ segir Inga. Greinilegt sé að þarna hafi áfengi verið haft við hönd enda virðist enginn muna eftir nema broti og broti úr samtölunum. Þau virðist koma þeim afskaplega á óvart.

Fólk verði auðvitað að hugsa sinn gang og reyna að vinna aftur traust og trúverðugleika. Ekki sé heldur nóg að axla pólitíska ábyrgð heldur verði fólk einnig að bera ábyrgð á sínu eigin lífi. Spurð um þátt Ólafs Ísleifssonar í samtölum þingmannanna segist Inga hafa heyrt í Ólafi í gærkvöld: „Hann í rauninni sagði aldrei neitt svona lagað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert