Hætt við sameiningu WOW og Icelandair

Fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group á Wow air en kaupsamningur var undirritaður 5. nóvember sl. Þetta er sameiginleg niðurstaða beggja aðila. Svo segir í tilkynningu til kauphallarinnar frá Icelandair. Í pósti til starfsfólks WOW air boðar Skúli Mogensen til fundar með starfsmönnum klukkan 10. 

Hann segist aldrei hafa farið leynt með þá skoðun sína að WOW air yrði áfram rekið sem sjálfstætt flugfélag og það sé nákvæmlega það sem unnið sé að. Hann segist vonast til þess að geta greint starfsfólki sínu frá fleirum góðum fréttum á næstunni. 

Í tilkynningu 26. nóvember sl. greindi Icelandair Group hf. frá því að ólíklegt væri að allir fyrirvarar í kaupsamningi um kaup félagsins á Wow air yrðu uppfylltir fyrir hluthafafund félagsins sem haldinn verður á morgun. Staðan er óbreytt hvað þetta varðar. Því er ólíklegt að stjórn Icelandair Group geti mælt með því við hluthafa félagsins að þeir samþykki kaupsamninginn. Þá hefur stjórn ekki í hyggju að leggja til við hluthafafund tillögu um að fresta ákvarðanatöku um kaupsamninginn.

Í ljósi þessarar stöðu er það sameiginleg niðurstaða beggja aðila að falla frá fyrrnefndum kaupsamningi.

Hluthafafundur Icelandair Group verður haldinn föstudaginn 30. nóvember eins og áður hefur verið auglýst. Á fundinum liggur fyrir tillaga um heimild stjórnar til að auka hlutafé Icelandair Group.

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair Group, segir í fréttatilkynningu:
„Fyrirhuguð kaup Icelandair Group á flugfélaginu Wow air munu ekki ganga eftir. Stjórn og stjórnendur beggja félaga hafa unnið að þessu verkefni af heilum hug. Niðurstaðan er vissulega vonbrigði. Stjórnendum WOW air færi ég þakkir fyrir mjög gott samstarf í þessu verkefni síðustu vikur. Jafnframt óskum við eigendum og starfsfólki félagsins alls hins besta.“

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, segir í tilkynningu:
„Það var ljóst strax í upphafi að það var metnaðarfullt verkefni að klára alla fyrirvara við kaupsamninginn á þetta skömmum tíma. Við þökkum stjórnendum Icelandair Group fyrir samstarfið í þessu krefjandi verkefni og óskum sömuleiðis stjórnendum og starfsfólki Icelandair Group alls hins besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka