Atvinnustefnan sem bæjarstjórn Akureyrar samþykkti vorið 2014 er úrelt og mikilvægt að marka nýja. Þetta kom fram í umræðum á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fulltrúi D-lista, tók málið upp. Hún reifaði nauðsyn þess að styrkja samkeppnisstöðu bæjarins á atvinnumarkaði og fjölga íbúum. Urðu miklar umræður um málið þar sem bent var á ýmsar brotalamir sem lagfæra yrði ef laða ætti fleira fólk og fyrirtæki til bæjarins.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu bóka að þeir óskuðu eftir því að farið yrði í vinnu við að gera samkeppnisgreiningu fyrir bæjarfélagið til þess að nota til markaðssetningar á bænum, bæði á atvinnu- og íbúamarkaði.
Fram kom við umræðurnar að fólksfjölgun á Akureyri hefði ekki orðið í takt við þær bjartsýnu vonir sem atvinnustefnan byggðist á. Á síðustu fimm árum hefur íbúum Akureyrar fjölgað um rétt innan við 5%. Á sama tíma hefur íbúum landsins fjölgað um 8%. Á þessu ári nemur fjölgun íbúa á Akureyri 0,5%. Það þýðir að rétt innan við 100 manns hafa flust til bæjarins.
Berglind Ósk sagði við umræðurnar að skortur á leikskólaplássum í bænum og hálaunastörfum væru meðal þátta sem hefðu letjandi áhrif á fólksflutninga til Akureyrar. Bæjarráð Akureyrar á eftir að taka afstöðu til þess hvort ráðist verður í þá samkeppnisgreiningu fyrir bæjarfélagið sem sjálfstæðismenn stungu upp á.