Hópur kvenna á þingi ætlar að koma saman í hádeginu og ræða þau ummæli sem nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um samstarfsmenn sína á barnum Klaustri í síðustu viku.
Samkvæmt heimildum mbl.is ræddust þær konur við sem getið er í upptökunni í gærkvöldi og í framhaldinu var ákveðið að kalla saman konur á þingi til fundar.
Á upptökunni má heyra þingmenn beggja flokkanna ræða menn og málefni með hætti sem flestum þykir óviðeigandi. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika. Meðal kvenna sem þingmennirnir töluðu um með niðrandi hætti eru Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður þingflokksins, segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi verið ákveðinn og að líklega muni konur úr öllum þingflokkum sitja fundinn.