„Við höfum ekki orðið vör við að það sé neitt meira í gangi núna en oftast er á þessum árstíma. Það eru fyrst og fremst kvefpestir sem hrjá landann en inflúensu höfum við ekki orðið vör við,“ segir Jón Aðalsteinn Jónsson, fagstjóri lækninga á Heilsugæslunni í Mjódd í Reykjavík.
Jón segir kvefpestir geta haft misjafnar afleiðingar fyrir fólk. Sumir geti fengið lungnakvef og ungviðið eyrnabólgu. En flestum batni ef þeir fara vel með sig og halda sig jafnvel heima, það geti líka komi í veg fyrir smit. Jón segir að í hitabreytingum sem fylgi vetrinum sé mikilvægt að klæða sig eftir veðri.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í smitsjúkdómum barna og staðgengill sóttvarnalæknis hjá Embætti landlæknis, tekur í svipaðan streng og Jón, það sé fyrst og fremst venjulegt kvef sem gangi um þessar mundir. Hún segir að inflúensa og RSV-veirusýning séu ekki komnar á flug. Þær byrji yfirleitt fyrir alvöru upp úr miðjum desember á kaldasta tíma ársins.