„Ummæli þau sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla 20. nóvember á Klaustri lýsa skammarlegum viðhorfum til kvenna og við lítum þau verulega alvarlegum augum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hafa sent frá sér vegna ummæla sem nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um samstarfsmenn sína á barnum Klaustri í síðustu viku.
Þingkonurnar fordæma ummælin og ætla að óska eftir því að málið verði tekið upp í forsætisnefnd.
Hópur kvenna á þingi situr nú á fundi í Alþingishúsinu í þeim tilgangi að ræða ummæli þingmannanna. Fundurinn hófst klukkan 11:30.
Samkvæmt heimildum mbl.is ræddust þær konur við sem getið er í upptökunni í gærkvöldi og í framhaldinu var ákveðið að kalla saman konur á þingi til fundar.
Á upptökunni má heyra þingmenn beggja flokkanna ræða menn og málefni með hætti sem flestum þykir óviðeigandi. Þar er meðal annars rætt um útlit stjórnmálakvenna, gáfnafar og andlega eiginleika. Meðal kvenna sem þingmennirnir töluðu um með niðrandi hætti eru Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný, Inga og Silja Dögg segja það algjörlega ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu og tjái sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða. „Þá skiptir einu hvort um er að ræða pólitíska andstæðinga eða samherja.“
Í yfirlýsingunni segir einnig að ummælin opinberi viðkomandi þingmenn og dæmi sig sjálf. „Hegðun þeirra er ekki til þess fallin að auka virðingu almennings á Alþingi eða á stjórnmálamönnum og setur samstarf og trúnað í uppnám.“
Að lokum vilja þingkonurnar minna á siðareglur sem allir þingmenn hafa undirgengist og vísa þær í 5. grein um meginreglur um hátterni þingmanna sem og hátternisskyldur alþingismanna þar sem segir að þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki hefur verið boðað til sérstaks fund með þingflokksformönnum vegna málsins og segir líklegt að málið verði ekki rætt fyrr en dagskrá þings hefst á mánudag.