Standi utan orkulöggjafar ESB

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég get ekki séð að það skipti samstarfsþjóðir okkar nokkru máli þó að við stæðum utan regluverksins um orkumál. Þrátt fyrir að vera hlutfallslega stórir framleiðendur er markaðurinn hér örmarkaður í stóra samhenginu, markaður sem skiptir ekki aðra en okkur máli m.a. annars vegna þess hversu langt við erum frá markaði ESB og við erum ekki að tengjast þeim markaði á næstu árum, hvað sem síðar verður.“

Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem til stendur að innleiða hér á landi í gegnum EES-samninginn. Málið hefur mætt mikilli andstöðu, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Skoðanakönnun sem fyrirtækið Maskína gerði fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, síðasta vor sýndi yfir 90% stuðningsmanna flokksins andvíga því að framselja frekara vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana. Þá ályktaði landsfundur flokksins um málið á svipuðum nótum í mars. Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa áður lýst efasemdum um þriðja orkupakkann. Þar á meðal Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson og Haraldur Benediktsson.

Áhyggjur af þriðja orkupakkanum eðlilegar

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er okkur Íslendingum hlutfallslega mikilvægari en öðrum þjóðum og þess vegna eðlilegt að umræður verði krefjandi. [...] Það er því eðlilegt að margir hafi áhyggjur þegar þeir telja að innleiðing regluverks ESB geti haft takmarkandi áhrif á ákvarðanatöku okkar um skipulag þessara mála til lengri framtíðar og mögulega kallað fram hækkun á raforkuverði til heimila og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu.“ Talið hafi verið hagkvæmt á sínum tíma að innleiða fyrsta og annan orkupakka Evrópusambandsins en þróun regluverks þess í orkumálum hafi ekki verið fyrirséð.

„Ekkert af því sem þar var gert hefðum við ekki getað innleitt sjálf, eins og til að mynda að skapa grundvöll fyrir opinn markað og samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni. Það höfum við gert í sjávarútvegi með því að hafa markað fyrir veiðileyfi og frjálsa sölu á sjávarafurðum. Við þurftum ekki ESB til að segja okkur fyrir verkum í þeim efnum og árangur okkar er stórkostlegur borið saman við árangur annarra þjóða,“ segir Jón en fyrr á árinu sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að orkumál Íslendinga væru ekki mál sem ættu að heyra undir innri markað Evrópusambandsins.

Hefði ekki átt að samþykkja pakka eitt og tvö

Eftir á að hyggja hefði fyrir vikið verið skynsamlegt að Íslendingar þróuðu eigið regluverk í þessum efnum til þess að gæta hagsmuna landsmanna og fyrirtækja í landinu. Grundvallarspurningin væri hvort Ísland ætti eitthvað erindi í samstarf um orkumál við nágrannaþjóðirnar. „Er þörf á því að efna hér á landi til deilna um viðkvæmt mál þegar afleiðingarnar eru eins óljósar og raun ber vitni og þá ekki síst með tilliti til þess að nú þegar er verið að undirbúa 4. orkupakkann? Ef við síðar tökum þá ákvörðun að tengja Ísland með raforkusæstreng til Evrópu er auðvitað allt önnur staða uppi og eðlilegt að þá þurfi að samræma reglur hér þeim reglum sem gilda á því markaðssvæði.“

Tillaga Jóns í málinu sé einföld: „Setjumst niður með viðsemjendum okkar og förum yfir málin á þessum grunni. Ég sé ekki að þær þjóðir hafi, eins og sakir standa, sérstaka hagsmuni af því að við innleiðum reglur ESB um orkumál. Fyrir Norðmenn er málið mikilvægt, því þeir eiga í miklum og að þeirra mati ábatasömum viðskiptum við Evrópulönd vegna sölu á raforku. Í mínum huga er þetta einfalt mál en það má vel vera að niðurstaðan verði flóknari en virðist við fyrstu sýn, það kemur þá í ljós þegar á reynir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert