Landssamband Framsóknarkvenna (LFK) fordæmir og harmar þau ummæli sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um konur 20. nóvember.
„Þessi ummæli lýsa niðrandi viðhorfum, meðal annars til stjórnmálakvenna og lítum við þau mjög alvarlegum augum,“ segir í ályktun sambandsins.
Þar kemur fram að það sé sorglegt að upplifa að kjörnir fulltrúar á Alþingi sýni slíka kvenfyrirlitningu, sér í lagi þar sem nokkrir af þingmönnunum hafa talað opinberlega fyrir auknu jafnrétti kynjanna.
Einnig segir í ályktuninni að ummælin séu alvarlegt brot á siðareglum þingmanna. „Þingmenn líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar, bera fulla ábyrgð á orðum sínum og gerðum og teljum við það sem nú hefur þegar komið fram í fjölmiðlum vera þess eðlis að fyrrnefndir þingmenn segi tafarlaust af sér.“
Ályktunin í heild sinni:
Landssamband Framsóknarkvenna (LFK) fordæmir og harmar þau ummæli sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um konur þann 20. nóvember síðastliðinn. Þessi ummæli lýsa niðrandi viðhorfum, meðal annars, til stjórnmálakvenna og lítum við þau mjög alvarlegum augum.
Helstu baráttumál Landssambands Framsóknarkvenna hafa frá stofnun þess árið 1981 snúið að jafnrétti kynjanna og aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum. Margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttunni og þátttaka kvenna í stjórnmálum, í sveitastjórnum og á Alþingi hefur aukist jafnt og þétt. Við eigum öflugar konur sem taka virkan þátt í stjórnmálum en þó erum við ekki enn komin á leiðarenda. Það er sorglegt að upplifa að kjörnir fulltrúar á Alþingi sýni slíka kvenfyrirlitningu, sér í lagi þar sem nokkrir af þessum þingmönnum hafa opinberlega talað fyrir auknu jafnrétti kynjanna.
Ummæli umræddra þingmanna eru að mati LFK alvarlegt brot á siðareglum sem allir þingmenn undirgangast, m.a. 5. og 7. grein reglnanna. Viðhorf sem þessi í lýðræðissamfélagi sem fagnar um þessar mundir 100 ára fullveldi sínu eru óásættanleg með öllu. Þingmenn líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar, bera fulla ábyrgð á orðum sínum og gerðum og teljum við það sem nú hefur þegar komið fram í fjölmiðlum vera þess eðlis að fyrrnefndir þingmenn segi tafarlaust af sér.
LFK áréttar að konur úr öllum stjórnmálaflokkum hafa náð kjöri út á eigin verðleika. Við hvetjum þær til áframhaldandi góðra starfa og hafa þar með bein áhrif á mótun samfélagsins.