Vefsíðunni Tekjur.is lokað

Vefsíðunni Tekjur.is hefur verið lokað að kröfu Persónuverndar.
Vefsíðunni Tekjur.is hefur verið lokað að kröfu Persónuverndar. Skjáskot/Tekjur.is

Vefsíðunni Tekjur.is hefur verið lokað eftir að stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu að birting opinberra upplýsinga úr skattskrá á vefsíðunni er óheimil.

Tekjur.is var opnuð í október þar sem veitt­ur var aðgang­ur gegn gjaldi að upp­lýs­ing­um um tekj­ur allra ein­stak­linga á ár­inu 2016 sam­kvæmt gögn­um rík­is­skatt­stjóra. Persónuvernd hefur haft starfsemi síðunnar til skoðunar frá opnun hennar.

Í tilkynningu frá vefsíðunni, sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður síðunnar undirritar, og sjá má í heild sinni á upphafssíðu vefsíðunnar, segir að tafarlaust hafi verið farið að ákvörðun stjórnar Persónuverndar en ákvörðunin komi á óvart þar sem á síðunni séu eingöngu birtast upplýsingar sem þegar eru opinberar samkvæmt lögum og hver sem er getur nálgast hjá ríkisskattstjóra. Rekstraraðilar síðunnar segja að með ákvörðun sinni horfi Persónuvernd fram hjá þeirri staðreynd, sem og þeim lagaákvæðum sem tilgreina að útgáfa upplýsinga úr skattskrá sé heimil, í heild eða hluta.

Ásamt því að síðunni verði lokað fer Persónuvernd fram á að rekstraraðili síðunnar eyði öllum tengdum gögnum.

Meðal þess sem Persónuvernd skoðaði í athugun sinni á síðunni var hvort hún geti talist vera fjölmiðill. Niðurstaðan er að svo er ekki og það telja rekstaraðilar síðunnar „varhugavert fyrir stöðu tjáningarfrelsisins og frjálsrar fjölmiðlunar í landinu“.

Tekjur.is telur ákvörðun stjórnar Persónuverndar í andstöðu við lög og hyggjast rekstraraðilar síðunnar skoða réttarstöðu sína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert