Kaup fjárfestingafélagsins Indigo Partners á WOW air mun líklega hafa í för með sér breytingar á leiðarkerfi flugfélagsins og jafnvel áhrif á það hvernig starfsmannahaldi er háttað svo sem með aukinni notkun verktaka, ef aðferðafræði fjárfestingafélagsins verður notuð við endurskipulagningu flugfélagsins.
Þetta kemur fram í umfjöllun veftímaritsins Skift sem sérhæfir sig í umfjöllun um ferðaþjónustu.
Sagt er frá því að Indigo Partners sé líklega besta og árangursríkasta fjárfestingafélagið sem leggur áherslu á flugfélög sem eiga við rekstrarvanda að stríða og er vísað til Spirit Airlines, Volaris og Wizzair. „Hins vegar er WOW air, sem hefur glatt viðskiptavini sína með ódýrum fargjöldum yfir atlantshafið og þjónustu sinni, í talsverðum erfiðleikum.“
Þá segir að William Franke, stjórnandi Indigo Partners, sé virkur fjárfestir sem hefur veruleg afskipti af rakstri þeirra flugfélaga sem fjárfest er í. Lögð er áhersla á lággjaldafélög sem fljúga styttri ferðir í „Ryanair stíl.“
Flugfélögin fljúga ört og er lítill tími milli fluga, einnig rukkað sé fyrir alla þjónustu og varning um borð. Algengt er að notaðir eru verktakar í stað eigin starfsfólks á flugvöllum til þess að hagræða rekstri.
Fram kemur að Indigo Partners hefur fjárfest í fleiri lággjaldaflugfélögum (e. low cost) í gegnum tíðina og breytt þeim í ofur-lággjaldafélög (e. ultra-low cost).
Samkvæmt Skift er hugsanlegt að Indigo Partners myndu fara fram á breytt leiðakerfi hjá WOW með því markmiði að auka áherslu á styttri vegalendir í stað lengri ferða, til að mynda milli Los Angeles og Keflavíkur, svo hægt verði að tryggja aukna hagkvæmni. Þá mun hugsanlega vera endursamið við byrgja og þjónustuaðila til þess að lækka kostnað.
Ben Baldenza sat í um tvö til þrjú ár í stjórn WOW air og lét nýlega af þeim störfum hefur áður gengt stöðu forstjóra Spirit Airlines, sem er eitt þeirra fyrirtækja sem Indigo Partners keypti og tók hann þátt í að snúa þeim rekstri við.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir fyrirhuguð kaup Indigo Partners ekki hafa komið í gegnum Baldenza eða tengjast honum með öðrum hætti, en jafnframt segir hún að „flugheimurinn er lítill.“