Maðurinn sem tók upp samtöl þingmannanna á Klaustur bar í Reykjavík í síðustu viku sat þar fyrir tilviljun og blöskraði svo orðfæri þeirra að hann ákvað að hefja upptöku á símanum sínum. Þetta kemur fram í viðtali við manninn, sem kemur ekki fram undir nafni, í DV í dag.
Í fyrrakvöld hófu að birtast fréttir upp úr upptökunum og hafa þær valdið miklum titringi í samfélaginu. Þeir sem á barnum sátu voru fjórir þingmenn Miðflokksins, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, auk tveggja þingmanna Flokks fólksins, þeirra Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar.
Maðurinn segist hafa litið svo á að það sem hann heyrði ætti erindi við almenning þó að hann hafi ekki vitað á þeim tímapunkti hvað hann ætti að gera við upptökurnar. Hann segist ekki fylgjast sérstaklega vel með pólitík og því hafi Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins, verið sá eini sem hann þekkti í sjón.
Hann segist ekki hafa ætlað að sitja lengi á barnum en þegar hópurinn fór að hæðast að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi þingmanni og baráttukonu fyrir réttindum fatlaðra, og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, hafi sér verið nóg boðið.
Í frétt DV um málið segir að upptökurnar séu rúmar þrjár klukkustundir og í sjö hlutum.
Maðurinn, sem sendi DV, Stundinni og Kvennablaðinu tengil á vefsíðu þar sem upptökurnar var að finna, segir að það hafi ekki verið fyrr en hópurinn stóð upp og bjóst til heimferðar að einhver veitti honum athygli. Einn þeirra hafi þá fullyrt við hina að hann væri erlendur ferðamaður.