Lausafjárvandinn enn óleystur

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

„Það er auðvitað jákvætt að eitthvað sé að gerast sem geti orðið til þess að flugfélagið lifi þetta af og þetta er trúverðugur aðili. Þannig að á meðan það er í gangi þá er von,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is um fyrirhugaða fjárfestingu fyrirtækisins Indigo Partners í WOW air sem tilkynnt var um í gær.

Hins vegar segir Skarphéðinn að eins og fram hafi komið sé lausafjárvandi WOW air til skemmri tíma óleystur. „Þessir menn eru ekkert búnir að borga neitt inn,“ segir hann. Það sem veki líka athygli sé að gert skuli vera ráð fyrir að Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, verði áfram stærsti eigandi flugfélagsins. Þá sé ekki víst að það séu svo miklir peningar að koma inn í félagið nema þá að um verði að ræða einhvers konar lánafyrirgreiðslu til þess.

Spurning hvað þurfi að gefa út fyrir hlutafé

Virði eiginfjár WOW air sé ekki mikið þannig að þó að gefið yrði út viðbótarhlutafé sem Indigo Partners myndi kaupa þá sé álitaefni hversu langt það færi. Miðað við að frásagnir af niðurstöðu áreiðanleikakönnunar Icelandair Group séu réttar, um að Skúli hefði ekki fengið neitt, þá þýddi það að eigið fé félagsins væri metið núll eða minna en það. Þá sé spurning hvað gefa þurfi út mikið nýtt hlutafé til þess það skipti máli og Skúli haldi meirihluta.

Mikilvægt sé fyrir WOW air að óvissan um framtíð flugfélagsins vari sem allra minnstan tíma. Margir haldi vafalaust að sér höndum við að kaupa sér flug með félaginu á meðan þessi óvissa ríki. Hins vegar sé WOW air stærst á erlendum mörkuðum og spurning sé hversu mikil áhrif þetta hafi á umræðuna þar. Spurður um framhaldið segir Skarphéðinn að það skýrist kannski ekki mikið í dag í þessum efnum. Vinnan sem í gangi sé taki einhverja daga.

„Það verður varla fyrr en eftir helgi. Núna þurfa þessir aðilar bara að fara í þessa vinnu,“ segir hann. Það skýrist væntanlega á næstu dögum hver niðurstaðan verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert