Fimm manns voru í tveimur bílum sem urðu fyrir snjóflóði sem féll á Flateyrarveg um klukkan hálfátta í kvöld. Allir komust ómeiddir og af sjálfsdáðum út úr bifreiðunum áður en viðbragðsaðilar mættu á svæðið, samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri. Vísir greindi fyrst frá.
Flóðið féll á Hvilftarströnd innan við Flateyri. Sjúkraflutningamenn frá slökkviliði Ísafjarðar skoðuðu fólkið en taldi ekki ástæðu til þess að flytja það á sjúkrahús, samkvæmt upplýsingum frá Hlyni Kristjánssyni, varðstjóra slökkviliðsins.
Samkvæmt lögreglunni á Vestfjörðum tók flóðið aðra bifreiðina með sér af veginum og niður í fjöruborðið. Veginum hefur nú verið lokað og verður hann ekki opnaður aftur í nótt. Þá hefur ákvörðun verið tekin um að veginum um Súðavíkurhlíð verði lokað á miðnætti vegna snjóflóðahættu.
Fréttin hefur verið uppfærð.