„Það er alltaf gott þegar Danir koma með bækur til Íslands,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann tók á móti heildarútgáfu Dana á skrifum konungsins Kristjáns X, um málefni Íslands á árunum 1912 til 1932 úr höndum Margrétar Þórhildar Danadrottningar.
Fram kom í máli Margrétar Þórhildar í Eldborgarsal Hörpu að minnispunktarnir hafi í sinni upprunalegu mynd fyllt 444 handskrifaðar blaðsíður sem hafa hingað til ekki verið aðgengilegar almenningi.
„Með þessari útgáfu geta nú þeir sem áhuga hafa fengið innsýn í viðbrögð konungs við vaxandi ósk Íslendinga um fullt sjálfstæði. Stöðu sem Ísland náði 1944 og hefur orðið landi og þjóð að gæfu og gagni,“ sagði hún.
Guðni þakkaði fyrir sig og ræddi í framhaldinu um fullveldi Íslendinga, í tilefni 100 ára afmælis þess í dag. „Verum glöð yfir þessum degi, fullveldisdegi eins og landar okkar voru svo margir fyrir heilli öld,“ sagði hann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði sögu íslensks samfélags allt frá landnámi hafa verið menningarsögu. Sagðar hafi verið sögur þar sem við kynntumst örlögum karla, kvenna og barna, auk þess sem kvæði um allt á milli himins og jarðar voru ort. Annálar hafi verið skrifaðir um hörmungar, óveður, eldgos, mannfelli og hafís. „Alla þessa sögu geymir íslensk tunga,“ sagði hún og bætti við að íslenskum glæpasagnahöfundum hefði loksins tekist að selja íslenska myrkrið.
„Íslensk menning hefur gert okkur að því sem við erum, borið hróður okkar um heim allan. Hún hefur gert lífið þess virði að lifa því.“ Hún sagði listina varpa birtu inn í dimman dag og að hún geti breytt lífi okkar.