Sífellt stærri hluti af afurðum hrossskrokkanna er seldur til Japans. Ekki aðeins eru seldir vöðvar með fitusprengdu kjöti af ýmsum hlutum skepnunnar heldur hafa bæst við hrossatungur, lifur og hnakkaspik.
Þá er farið að safna hrossahjörtum og það nýjasta er mænan, sem þykir góður forréttur í ákveðnum héruðum í Japan.
Mænan er soðin niður, klippt í strimla og borin fram með ediki og sojasósu. Þykir herramannsmatur. Er nú verið að kanna möguleika á að flytja folaldakjöt til Japans, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.