Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason þingmenn sem voru reknir úr Flokki fólksins í gær munu starfa áfram á Alþingi sem óháðir þingmenn og í samtali við mbl.is segir Ólafur ótímabært að ræða samstarf við aðra stjórnmálaflokka á þessu stigi.
Mikið hefur verið rætt um að þingmennirnir ætli sér að skipta um flokk og ganga til liðs við Miðflokkinn eftir að greint var frá því í fjölmiðlum að þingmenn Miðflokksins hefðu reynt að fá þá Ólaf og Karl Gauta til að yfirgefa Flokk fólksins þegar þeir ræddu saman á barnum Klaustur 20. nóvember síðastliðinn.
„Mér virðist sem stjórnin hafi greitt Flokki fólksins þungt högg með þessari ákvörðun. Þessi ákvörðun kallar á nánari skýringar af hálfu hennar. Hún sýnist lítt grunduð. Til mín hafa ekki verið rakin nein ummæli sem eru særandi eða meiðandi í garð nokkurs manns. Ég fór þegar ég taldi að í óefni stefndi en hefði átt að sjá það fyrr og fara fyrr, svo það sé viðurkennt,“ sagði Ólafur Ísleifsson í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
„Við Gauti verðum óháðir þingmenn. Á milli okkar hefur verið þétt málefnaleg og persónuleg samstaða og ég á von á að hún haldist,“ sagði Ólafur einnig við það tilefni.
Í samtali við mbl.is í dag ítrekaði hann afstöðu þeirra um að þeir myndu standa saman tveir utan flokka. Spurður að því hvort það kæmi til greina að ganga til liðs við Miðflokkinn sagði Ólafur:
„Ekkert slíkt hefur verið rætt. Það er alveg ótímabært að ræða samstarf við aðra einstaka stjórnmálaflokka á þessu stigi.“
Þá var hann afdráttarlaus í svari þegar hann var spurður hvort aðrir flokkar kæmu til greina og sagði einfaldlega: „Nei.“