Alþjóðlegi HIV/alnæmisdagurinn er haldinn 1. desember á ári hverju til að vekja athygli á HIV með fræðslu og upplýsingagjöf og til að sýna samstöðu með þeim sem lifa með HIV.
Á Íslandi höfðu alls 389 manns greinst með HIV/alnæmi í lok ársins 2017. Þar af voru 282 karlar og 107 konur. Flestir sem greinst höfðu voru á aldrinum 20–49 ára. Á árinu 2017 greindust alls 28 einstaklingar með HIV, þar af voru 13 samkynhneigðir, átta gagnkynhneigðir og fimm fíkniefnaneytendur.
Aukning er á fjölda þeirra sem greinst hafa á þessu ári miðað við síðasta ár. Í lok október 2018 hafði HIV-sýking verið staðfest hjá 34 einstaklingum en á sama tíma í fyrra höfðu 23 einstaklingar greinst. Um þriðjungur þeirra sem greinst hafa í ár eru með íslenskt ríkisfang og er það svipað hlutfall og á árinu 2017.
Í ár er dagurinn helgaður greiningu sjúkdómsins undir yfirskriftinni „Know your HIV status“. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) voru undir lok ársins 2017 tæplega 37 milljónir manna með greint HIV/alnæmi í heiminum og tæplega 22 milljónir (59%) sem fengu lyfjameðferð gegn sjúkdómnum.
Í Evrópu greindust um 160.000 einstaklingar með HIV-sýkingu á árinu 2017 og þar af lang flestir í Austur-Evrópu. Í flestum löndum Evrópu fækkaði nýgreiningum HIV nema í Austur-Evrópu en þar fjölgaði greiningum á árinu 2017.
Hlutfall HIV-smitaðra sem ekki er kunnugt um smitið er mjög breytilegt milli landa, allt eftir uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og aðgengi að HIV-sýnatöku, segir í frétt á vef embættis landlæknis.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur því mikla áhersla á aukið aðgengi að sýnatöku því með aukinni sýnatöku greinast fleiri og fleiri fá meðferð með HIV-lyfjum. Þetta á ekki síst við á landssvæðum þar sem faraldurinn er í mestri útbreiðslu en á einnig við á Íslandi og í hinum vestræna heimi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur einnig áherslu á að efla þurfi fræðslu í forvarnaskyni og að tryggja þurfi HIV-jákvæðum full mannréttindi, m.a. með því að vinna á móti stimplun og fordómum.
Á árinu 2017 smituðust um 1,8 milljónir manna af HIV og tæplega ein milljón lést úr alnæmi á heimsvísu. Faraldurinn var mestur í Afríku, sunnan Sahara, en um 70% af nýsmituðum í heiminum eru frá því svæði.
Þeir sem greinast hér á landi hafa gott aðgengi að HIV-lyfjum. Lyfin skipta miklu máli fyrir langlífi og lífsgæði hins sýkta. Talið er fólk sem tekur HIV-lyf sín á hverjum degi geti átt von á því að lifa fram á gamalsaldur og lífsgæði þeirra verða í flestum tilfellum nánast eðlileg. Auk þess hefur komið í ljós að virk HIV-meðferð minnkar verulega líkur á smiti og gerir í mörgum tilfellum einstaklinga ósmitandi. Það er því til mikils að vinna fyrir fólk að fara í kynsjúkdómaskoðun hafi það minnsta grun um HIV eða annan kynsjúkdóm.
Hægt er að fara í HIV-próf á göngudeild smitsjúkdóma og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum landsins. Til að auðvelda aðgengi fólks að greiningu er skoðun, meðferð og eftirfylgni sjúkdómsins þeim að kostnaðarlausu.
Meðan engin lækning eða bólusetning er til við HIV er smokkurinn alltaf besta forvörnin. Það gildir því að nota hann alltaf og nota hann rétt, segir ennfremur á vef embættis landlæknis.